Ási í Smekkleysu nýr listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga

Ásmundur Jónsson hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga.
Ásmundur Jónsson hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga. Ljósmynd/Sigríður Óskarsdóttir

Ásmundur Jónsson, útgefandi, framleiðandi og tónleikahaldari, hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga. 

Ásmundur Jónsson, betur þekktur sem Ási í Smekkleysu, er landskunnur af störfum sínum innan íslensks tónlistarlífs og er varla til sá flötur þess sem hann hefur ekki snert, að því er segir í tilkynningu. Helst ber þó að nefna útgáfu á íslenskri tónlist á vegum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu, en Smekkleysa hefur um langt árabil verið helsta útgáfufyrirtæki á sviði sígildrar og samtímatónlistar á Íslandi auk þess sem fyrirtækið hefur sinnt útgáfu á íslenskum þjóðlögum og tónlistararfi. Áður vann Ásmundur að útgáfumálum hjá Japís, Gramminu og Fálkanum.

Ásmundur hefur fjölbreytta reynslu af tónleikahaldi og skipulagi listviðburða, og má þar nefna viðburði fyrir Listahátíð í Reykjavík, Reykjavík — menningarborg Evrópu 2000, Jazzvakningu auk hljómleikahalds með Múm, Sigur Rós og Björk, svo einhverjir séu nefndir. Hann hefur sinnt fjölmiðlamálum Bjarkar hér á landi, auk þess sem hann hefur unnið við tónlistarblaðamennsku og dagskrárgerð fyrir útvarp. Þá hefur hann verið virkur í félagsmálum tónlistargeirans og m.a. setið í stjórnum Félags hljómplötuframleiðenda, Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samtóns og Kraums auk þess að hafa gegnt formennsku í Listráði Hörpu.

Stjórn Tónskáldafélagsins fagnar ráðningu Ásmundar og býður hann velkominn til starfa.

mbl.is