„Ég er líka barn Katrín“

Maní ásamt vinum sínum fyrir utan Alþingishúsið í gær.
Maní ásamt vinum sínum fyrir utan Alþingishúsið í gær. Ljósmynd/No Borders Iceland

Maní, sautján ára transdrengur sem á að vísa úr landi á mánudag, mótmælti fyrirhugaðri brottvísun fyrir framan Alþingishúsið í gær. Hann stóð þar með skilti sem á stóð „Ég er líka barn Katrín“. Má ætla að skilaboðunum hafi verið beint til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Nokkrir vinir Maní mótmæltu með honum en Maní hefur stundað nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og eignast þar marga góða vini. Hann kom til landsins með foreldrum sínum, sem á einnig að vísa úr landi, fyrir tæpu ári. 

6.000 styðja Maní

Maní er frá Íran en vísa á fjölskyldunni til Portúgal. Fjölskyldan er viss um að þaðan verði henni vísað til Íran. Aðstæður hinsegin fólks í Íran eru slæmar og eru dæmi um að hinsegin fók sé útskúfað úr samfélaginu, beitt ofbeldi og jafnvel myrt. 

Brottvísun Maní verður mótmælt fyrir utan dómsmálaráðuneytið klukkan þrjú í dag. Rúmlega 6.000 manns hafa skrifað undir áskorun á íslensk stjórnvöld um að skoða mál fjölskyldunnar betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert