Hækkun hámarkshraðans kemur ekki til greina

Rætt hefur verið um Reykjanesbrautina á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur …
Rætt hefur verið um Reykjanesbrautina á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur sem mögulegan vegarkafla þar sem hægt væri að hækka hámarkshraða, en ýmis atriði leiða til þess að það kemur ekki til greina. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn vegur á Íslandi uppfyllir skilyrði fyrir 110 km/klst. hámarkshraða, segir í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns, sem birt hefur verið á vef Alþingis.

Engin áform eru af hálfu Vegagerðarinnar um að leggja til hækkun hámarkshraða umfram 90 km/klst. næstu árin, en Andrés Ingi spurði ráðherra hvar það hefði komið til álita að hækka hraðann. Í nýjum umferðarlögum segir að heimilt sé að hækka hraðann umfram 90 km/klst. með uppsetningu skilta.

Rætt hefur verið um Reykjanesbrautina á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur sem mögulegan vegarkafla þar sem hægt væri að hækka hámarkshraða, en ýmis atriði leiða til þess að það kemur ekki til greina. Næsta umhverfi vegarins, bæði norðan hans og sunnan, auk miðjusvæðisins á milli akbrauta, uppfyllir ekki nauðsynleg skilyrði svo unnt sé að leyfa meiri hraða.

„Til að heimila 110 km/klst. yrði að tryggja að lágmarki 18 m breitt svæði án hindrana beggja vegna brautarinnar til að draga úr hættu á alvarlegum meiðslum við útafakstur. Sem dæmi má nefna að norðan brautarinnar eru ljósastaurar sem gætu valdið slysi yrði ekið á þá. Unnið er að því að skipta þessum staurum út fyrir öruggari staura en þeirri vinnu er ekki lokið.

Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála.
Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Miðjusvæðið milli akbrauta, svokallaður miðdeilir, uppfyllir ekki heldur skilyrðin. Á miðjusvæðinu hefur verið unnið að uppsetningu vegriðs til að koma í veg fyrir að ökutæki geti farið yfir á akbraut með gagnstæða akstursstefnu. Segja má að sú vinna sé aðeins hálfnuð þar sem vegrið hefur einungis verið sett upp meðfram öðrum vegkanti, að jafnaði þeim megin sem vegkantur liggur hærra í landi. Ekki liggur fyrir hvenær unnt verður að ljúka uppsetningu vegriðs í miðdeili,“ segir í svari ráðherra, sem einnig minnist á að hjólreiðafólki hafi ekki verið tryggð örugg leið á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur og því sé ekki hægt að banna hjólreiðar á Reykjanesbrautinni.

mbl.is