Farið tvisvar á hæstu tindana og pólana

Leifur Örn á toppi hæsta fjalls Ástralíu.
Leifur Örn á toppi hæsta fjalls Ástralíu. Ljósmynd/Instagram-síða Leifs

Leifur Örn Svavarsson fjallaleiðsögumaður er að öllum líkindum fyrsti maðurinn í heiminum til að hafa gengið tvisvar sinnum eða oftar á hæstu fjöll heimsálfanna sjö og pólana tvo. Þessum einstaka árangri náði hann eftir að hafa klifið Kosciuszko, hæsta fjall Ástralíu.

Það að ná þessum árangri einu sinni kallast Adventurers Grand Slam eða Explores Grand Slam og hefur tugum manna tekist það. Leifur er aftur á móti sá fyrsti sem er opinberlega skráður fyrir því að klára alslemmuna tvívegis. 

Aðspurður segir Leifur Örn að starf hans sem leiðsögumaður hafi leitt hann í átt að metinu, sem hann stefndi þó aldrei að þegar hann hóf leiðsögumennskuna fyrir yfir þrjátíu árum.

„Ég er í fjölbreyttri vinnu og er að vinna bæði á fjöllum og pólunum,“ segir hann og bætir við: „Það eru örugglega margir leiðsögumenn sem hafa farið á pólana oftar en tvisvar eða farið á fjöllin oftar en tvisvar en að hafa gert bæði virðist ekki vera svo algengt.“

Leifur Örn gekk upp hæsta fjall heims, Everest, í annað sinn í fyrra. Áður hafði hann klifið fjallið norðanmegin, sem er brattari og erfiðari leið, árið 2013. 

Þessa mynd tók Leifur á Everest í fyrra.
Þessa mynd tók Leifur á Everest í fyrra. Ljósmynd/Leifur Örn Svavarsson

Sum fjöllin hefur hann farið oftar en tvisvar á, þar á meðal Mt. Elbrus, hæsta fjall Evrópu, Denali, hæsta fjall Norður-Ameríku og Aconcagua, hæsta fjall Suður-Ameríku en það ætlar hann að klífa í fimmta sinn í janúar á næsta ári á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna.

Jafnframt er stutt síðan hann kleif hæsta fjall Afríku, Mt. Kilimanjaro. Hópur Íslendinga var með í för, þar á meðal Helga María Heiðarsdóttir og dóttir hennar Alexandra.

Leifur hefur farið tvívegis á báða pólana og stefnir á fleiri ferðir þangað á meðan aldur leyfir en hann er 53 ára. Hann nefnir sérstaklega Norðurpólinn og segir hann skemmtilegan viðureignar. Ekki verði hægt að fara þangað mörg ár í viðbót vegna þess að ísinn sé orðinn svo þunnur og aðstæður erfiðar vegna hnattrænnar hlýnunar.

„Ekkert af þessum fjöllum eru auðveld. Þetta er allt heilmikið streð, allar þessar göngur,“ segir hann spurður út í erfiðasta verkefnið til þessa. Nauðsynlegt sé að hafa úthald og vera í góðu formi til að komast á leiðarenda.

Hefurðu aldrei verið hætt kominn?

„Nei, það held ég ekki. Ég hef haft það markmið að fara varlega og koma heim í öllum ferðum. Ég hef reynt eftir fremsta megni að gera þetta vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert