Kona sem stakk tengdason sinn fær þyngri dóm

Landsréttur sagði að refsing fyrir tilraun til manndráps ætti að …
Landsréttur sagði að refsing fyrir tilraun til manndráps ætti að lágmarki að vera fimm ár og að í þessu máli væri ekkert sem gæti réttlætt að refsing konunnar yrði undir þeirri lágmarksrefsingu. Ljósmynd/Hanna

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir konu um sjötugt sem í fyrra var dæmd til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir að stinga tengdason sinn á Akranesi í nóvember 2018. Konan fékk fimm ára dóm í Landsrétti, en hún er sakfelld fyrir tilraun til manndráps.

Kvöldið sem þetta átti sér stað var kon­an á heim­ili manns­ins og dótt­ur sinn­ar á Akra­nesi að passa barna­barn sitt, en konan var drukkinn og hafði faðir barnsins, ekki sá sami og fyrir árasinni varð, hringt í lögreglu eftir að barnabarnið hafði tjáð honum að amma væri ölvuð.

Maðurinn bar því við fyrir dómi að er hann hefði komið heim hefði konan verið reið út í barnsföður dóttur sinnar, þann sem hringdi á lögguna. En hvað sem því leið, þá sofnaði konan í sófanum og maðurinn fór í svefnherbergi sitt að sofa.

Maður­inn vaknaði svo við kon­una í svefn­her­berg­inu eftir að hafa sofið í einn til tvo tíma. Hún var með hníf og þegar hann ætlaði að koma henni úr her­berg­inu var hann stung­inn, en samkvæmt lækni sem skoðaði manninn eftir atlöguna var hann með djúpan skurð sem gekk rétt utan við rifbeinin inn í síðu og bakvöðva, að minnsta kosti 15-20 cm.

Hnífurinn gekk blessunarlega ekki inn í brjóstkassann, heldur rann með rifjunum og inn í bakvöðva mannsins.

Landsréttur sagði að refsing fyrir tilraun til manndráps ætti að lágmarki að vera fimm ár og að í þessu máli væri ekkert sem gæti réttlætt að refsing konunnar yrði undir þeirri lágmarksrefsingu.

Konan var því dæmd til fimm ára fangelsisvistar, en frá því dregst það rúma ár sem hún hefur verið í gæsluvarðhaldi vegan málsins, en hún hefur setið inni óslitið frá 10. nóvember 2018, nóttina er árásin átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert