Reif upp hníf í Icewear og ógnaði starfsmanni

Konan hlaut átta mánaða fangelsisdóm fyrir brot sín.
Konan hlaut átta mánaða fangelsisdóm fyrir brot sín. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær konu í átta mánaða fangelsi fyrir nokkur brot, meðal annars það að hafa rænt fatnaði úr verslun Icewear við Laugaveg í mars í fyrra og ógnað starfsmönnum þar með hnífi, er þeir reyndu að varna konunni útgöngu.

Fram kemur í dómnum að starfsfólk verslunarinnar hafi kannast við konuna vegna eldra þjófnaðarmáls, en hún kom inn í verslunina með ferðatösku með sér og tróð honum í töskuna inni í mátunarklefa. Starfsmennirnir áttuðu sig á því hvað stefndi í og lokuðu útidyrum og einn þeirra tók sér svo stöðu við dyrnar. Þá dró konan upp hníf og hafði í hótunum svo starfsmaðurinn opnaði dyrnar og hrökklaðist undan.

Konan, sem var í annarlegu ástandi, hélt niður Barónsstíg eftir ránið og lögreglumenn handtóku hana skömmu síðar eftir að hafa komið auga á hana í porti við Hverfisgötu. Hún reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum og kastaði ránsfengnum, fatnaði að andvirði 8.580 kr., frá sér í húsagarð.

Konan var einnig dæmd fyrir að hafa rúmum mánuði fyrr stolið skópari úr sömu Icewear-verslun að andvirði 15.490 kr., auk þess sem hún stal fartölvu úr húsnæði Hlutverkasetursins í Borgartúni á svipuðum tíma. Konan á sér nokkra sögu svipaðra brota og varð það henni til refsiþyngingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert