Súkkulaðilykt í stað reykjarlyktar

Frá aðgerðum slökkviliðs í gærmorgun.
Frá aðgerðum slökkviliðs í gærmorgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ástandið á lagernum batnaði með hverri klukkustundinni sem leið í gær,“ segir Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Freyju, í samtali við mbl.is um ástand á lagers Freyju, en mikill eldur kviknaði í sama húsi og lagerinn er í fyrrinótt.

Ekkert brann og engar beinar skemmdir urðu hjá Freyju en í gærmorgun sagði Pétur í samtali við mbl.is að líkur væri á einhverju tjóni vegna reykjarlyktar.

Nú segir hann hins vegar að farið hafi betur en útlit var fyrir í fyrstu. „Við vorum rosalega heppin með það að gera að það fór enginn reykur og ekkert sót inn og niður á lagerinn okkar. Það gerði það að verkum að þegar við höfðum loftað út í allan gærdag var nákvæmlega engin lykt, nema auðvitað súkkulaðilykt. Eins og á að vera!“

„Lítur rosalega vel út“

Segir hann að hins vegar hafi komist reykur inn á skrifstofur Freyju, og þar hafi þurft að þrífa allt hátt og lágt. Ekkert hafi þó heldur skemmst þar.

Aðspurður segir hann að dagurinn í dag hafi farið í nokkurs konar varúðarráðstafanir. „Vörurnar eru vafðar inn í brettaplast og nú er verið að taka allt brettaplast af og vefja inn í nýtt. Mér er sagt að plastið eigi það til að draga í sig einhverja reykjarlykt svo við erum að fjarlægja það, ef það skyldi vera eitthvað, bara til öryggis. Annars lítur þetta rosalega vel út.“

Hann bætir þó við að síðustu að áfram verði grannt fylgst með málum og með matvælunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert