Mögulega smitaðir fari í gáminn

Landspítalinn hefur tekið í notkun gámaeiningu við hlið bráðamóttökunnar í …
Landspítalinn hefur tekið í notkun gámaeiningu við hlið bráðamóttökunnar í Fossvogi, ætlaða þeim sem grunaðir eru um að vera smitaðir af kórónuveirunni COVID-19. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er fyrsti hlutinn í breytingum á húsnæði sem gripið hefur verið til vegna COVID-19-veirunnar,“ segir Jón Magnús Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir bráðalækn­inga á Land­spít­al­an­um. Spítalinn hefur tekið í notkun gámaeiningu við hlið bráðamóttökunnar í Fossvogi, ætlaða þeim sem grunaðir eru um að vera smitaðir af kórónuveirunni COVID-19.

Einingin var tilbúin til notkunar um miðja síðustu viku en Jón segir að auk þess verði gerðar breytingar á smitsjúkdómadeildinni og frekari langtímalausnir á húsnæði bráðamóttökunnar séu fyrirhugaðar. 

Það tekur lengri tíma og þess vegna var gripið til þess ráðs að fá þessa gámaeiningu sem tímabundna lausn.

Aðstöðunni er komið upp til þess að þeir sem eru grunaðir um að bera smit af kórónuveirunni COVID-19 blandist ekki öðrum sjúklingum á spítalanum.

„Þessi lausn felur það í sér að ef það kemur einstaklingur sem er grunaður um smit við þessari veiru þá er hægt að sinna honum án þess að hann þurfi að fara í gegnum biðstofu eða inn á sjálfa bráðamóttökuna,“ útskýrir Jón.

Íslensk fjölskylda sem var flutt til landsins frá Wuhan fyrir helgi var ekki prófuð við veirunni á spítalanum en hún er ekki smituð. Jón segir að nýtilkomin gámaeining hafi einu sinni verið notuð og reyndist hún vel.

„Við erum eins tilbúin og við getum orðið til að taka við einstaklingum sem eru grunaðir um COVID-19-smit,“ segir Jón og bætir við að fljótlega verði farið í frekari framkvæmdir við spítalann til að vera búin undir frekari mögulega faraldra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert