40 aðstoðarbeiðnir vegna ófærðar á Suðurnesjum

Björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa verið kallaðar fjörutíu sinnum út í …
Björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa verið kallaðar fjörutíu sinnum út í dag og kvöld til að hjálpa fólki sem er í vandræðum í erfiðri færð. Mynd frá einu slíku verkefni í Vogum síðdegis. Ljósmynd/Þröstur Njáls

Björgunarsveitir komu tugum ökumanna til aðstoðar sem voru í vandræðum á Sólheimasandi í kvöld vegna slæmrar færðar. Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast síðdegis í dag og í kvöld, aðallega á Suðurnesjunum en um 40 aðstoðarbeiðnir hafa borist björgunarsveitum þar vegna ófærðar. 

„Það var mest um að vera á Grindavíkurvegi. Það var þó nokkur ófærð þar, mikill skafrenningur og lélegt skyggni þannig að það varð til nokkur hundruð metra löng bílaröð þar sem þurfti að greiða úr þannig að Vegagerðin gæti hreinsað veginn,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

„Núna fyrir stuttu síðan var verið að reyna að hleypa einhverju af bílunum sem voru fastir þarna á Grindavíkurveginum og í kringum Bláa lónið í burtu í fylgd moksturstækis.“

Björgunarsveitirnar á Suðurnesjum standa enn í verkefnum sem tengd eru færð.

„Það er lélegt skyggni og skefur svolítið á vegina og ef einhver lendir í vanda og stoppar þá byrjar mjög fljótt að skafa í kringum hann. Þá verður verkefnið oft erfiðara þannig að það er mjög mikilvægt að brýna það fyrir fólki að fylgjast vel með færð á vegum áður en það heldur eitthvað út á land,“ segir Davíð.

Veður er víða vont á sunnanverðu landinu en gular viðvaranir eru í gildi fyrir Faxaflóa, Suðurland, Suðausturland og miðhálendið.

mbl.is