Guðni forseti hvetur til stillingar og handþvotta

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hvetur þjóðina til þess að …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hvetur þjóðina til þess að sýna stillingu og sömuleiðis til reglulegra handþvotta. mbl.is/Eggert

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvetur landsmenn til þess að sýna forsjálni, skynsemi og yfirvegun, nú þegar kórónuveirusmit hefur greinst á Íslandi. „Gætum vel að hreinlæti, þvoum okkur vel og reglulega um hendur,“ skrifar forsetinn á Facebook í kvöld.

Forsetinn bætir við að víða hafi sá siður verið tekinn tímabundinn upp að heilsast ekki með handabandi á mannamótum. „Það má alveg teljast sjálfsagt um stundarsakir þótt auðvitað sé ekki hundrað í hættunni ef fólk gleymir sér. En reglulegur handþvottur er afar mikilvægur,“ skrifar Guðni.

„Höldum ró okkar“

Forsetinn segir sömuleiðis við hæfi að ala ekki á ótta eða tortryggni og fara eftir tilmælum hverrar stundar. „Ég hvet alla til að fylgjast með upplýsingum sem birtast á heimasíðu landlæknis og jafnframt í fjölmiðlum hverju sinni. Skelfing leysir engan vanda. Höldum ró okkar og höldum áfram okkar daglega lífi eftir því sem kostur er,“ skrifar forsetinn og lætur fylgja með tengil á vef embættis landlæknis, þar sem finna má nýjustu upplýsingar og ráðleggingar  hverju sinni.mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

6. apríl 2020 kl. 13:00
1562
hafa
smitast
460
hafa
náð sér
38
liggja á
spítala
6
eru
látnir