Skíðaferð Íslendinga til Ítalíu á áætlun

Á Madonna á Ítalíu er þekkt skíðasvæði.
Á Madonna á Ítalíu er þekkt skíðasvæði. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn felldi niður borgarferð til Verona á Ítalíu 6. til 9. mars í gær. Söfnum og öðrum kunnum stöðum hefur verið lokað í borginni til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Farþegar sem áttu bókaða ferð fá allir endurgreitt, að sögn Þórunnar Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Úrvals-Útsýnar. 

Hins vegar er skíðaferð á vegum ferðaskrifstofunnar til Madonna á Ítalíu á áætlun á morgun. Flogið er með Icelandair til Verona snemma í fyrramálið og þaðan er hópurinn keyrður til Madonna. Þórunn tekur fram að eins og staðan sé núna er þetta tiltekna svæði sem hópurinn fer á ekki á hættusvæði vegna kórónuveirusmits. Hún ítrekar að ráðleggingum sóttvarnalæknis sé fylgt og svæðið sé ekki skilgreint sem hættusvæði enda myndi ferðaskrifstofan ekki stefna farþegum í hættu.     

Nokkrir hafa afbókað í skíðaferðina en flestir þeirra eru í eldri kantinum og með undirliggjandi sjúkdóma. Afbókanir eru ekki margar, segir Þórunn án þess að veita frekari upplýsingar um fjöldann.    

Fjölda ráðstefna og funda hefur verið aflýst víða um heim til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Svissnesk yfirvöld aflýsa öllum ráðstefnum og fundum sem telja yfir þúsund manns fram til 15. mars. 

Þetta hefur áhrif á ferðaskrifstofuna sem býður upp á viðskiptaferðir víða um heim. Þórunn segir að eitthvað sé um afbókanir vegna þeirra. „Þetta er landslagið núna og breytist dag frá degi, við tökum því einn dag í einu. Þetta gæti verið verra,“ segir hún og bætir við „en ég ætla að vera bjartsýn,“ segir hún. 

Úrval-Útsýn býður upp á fjölda ferða til Tenerife líkt og aðrar ferðaskrifstofur. Embætti landlæknis hefur ekki gefið út að varast skuli að fljúga þangað. Salan í ferðir til eyjunnar mjakast, að sögn Þórunnar.  

Hún ítrekar að fólk skuli fara eftir tilmælum landlæknis. „Við verðum að hugsa vel um okkur, þvo okkur um hendur og vera ekki að kyssast og knúsast,“ segir hún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert