Dóms að vænta í fjárdráttarmáli Afls sparisjóðs

Sparisjóðurinn AFL á Siglufirði.
Sparisjóðurinn AFL á Siglufirði.

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn Magnúsi Stefáni Jónassyni, fyrrverandi skrifstofustjóra Afls sparisjóðs á Siglufirði, fór fram í vikunni í Héraðsdómi Norðurlands eystra, en Magnús var ákærður í níu liðum fyrir að hafa dregið sér og verktakafyrirtæki samtals 85 milljónir auk annarra brota. Magnús játaði brot sín, en í vikunni var helst deilt um lagaatriði og viðurlög.

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari, sem rak málið fyrir dómstólnum, segir í samtali við mbl.is að meðal annars hafi verið deilt um upptökukröfu saksóknara á fjármunum á reikningi félagsins Bás ehf. sem einnig er ákært í málinu. Magnús á hlut í félaginu og samkvæmt ákæru er talið að það hafi notið góðs af brotunum.

Farið fram á tveggja ára refsingu

Fór saksóknari fram á tveggja ára refsingu yfir Magnúsi, en tekið var fram að vegna tímalengdar frá broti mætti horfa til að skilorðsbinda hluta refsingarinnar. Verjandi Magnúsar fór hins vegar fram á vægustu refsingu sem lög leyfa.

Málið kom upphaflega upp í september 2015 þegar kæra barst af hálfu Sparisjóðsins. Ári síðar barst kæra frá Arion banka, sem þá hafði tekið sparisjóðinn yfir og opnaðist þá á fleiri tilvik sem voru tekin inn í málið. Sá angi var hins vegar að lokum felldur niður, en hann tengdist smálánafyrirtækinu Kredia. Ákæra í málinu var svo gefin út í apríl árið 2019, en talsverðar tafir urðu á rannsókn málsins meðal annars vegna erfiðleika við að fá skýrslugjöf.

Sem fyrr segir játaði Magnús alla níu ákæruliði málsins og má búast við að dómur falli á næstu fjórum vikum, nema dómurinn nýti sér heimild til að framlengja tíma til dómsuppsögu, en það væri að hámarki fjórar vikur til viðbótar.

Lánveitingar án heimildar

Samkvæmt ákæru var Magnús ákærður fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti, en varðandi umboðssvikin er hann ákærður fyrir að að hafa mis­notað aðstöðu sína og stefnt fjár­mun­um spari­sjóðsins í veru­lega hættu á ár­inu 2011 þegar hann hafi farið út fyr­ir heim­ild­ir sín­ar til lán­veit­inga og gegn starfs­fyr­ir­mæl­um með því að láta spari­sjóðinn lána fjór­um ein­stak­ling­um fimm millj­ón­ir króna hverj­um í formi yf­ir­drátt­ar­heim­ild­ar. Voru þeir fjármunir svo lagðir inn á reikning annars félags til lækkunar á yfirdráttarskuld þess við sparisjóðinn, en það gerði fé­lag­inu mögu­legt að auka yf­ir­drátt sinn sem þeirri fjár­hæð nam.

Lán­veit­ing­in hafi verið af­greidd af Magnúsi án samþykk­is lána­nefnd­ar spari­sjóðsins, án þess að end­ur­greiðsla láns­ins væri tryggð með full­nægj­andi hætti og án þess að kanna eða láta kanna með full­nægj­andi hætti greiðslu­getu lán­tak­enda sem var í and­stöðu við regl­ur bank­ans um lán­veit­ing­ar. Lán­veit­ing­in hafi ekki feng­ist nema að hluta end­ur­greidd og telja verði um­rædda fjár­muni spari­sjóðnum að veru­legu leyti glataða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert