Undanþágur dragi úr krafti verkfallsvopnsins

Veitt var undanþága um sorphirðu vegna kórónuveirunnar og aukinnar smithættu.
Veitt var undanþága um sorphirðu vegna kórónuveirunnar og aukinnar smithættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri Eflingar segir að eðlilega hafi félagsmenn áhyggjur af því að þeir séu að gefa frá sér verkfallsvopnið að hluta með því að samþykkja undanþágur vegna mögulegra áhrifa á sóttvarnir vegna kórónuveirunnar. Hann kveðst stoltur af félagsmönnum að hafa sett almannahagsmuni í forgang.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti áhyggjum af því á laugardag að verkfallsaðgerðir Eflingar drægju úr áhrifum sóttvarnaraðgerða vegna kórónuveirunnar og samþykkti Efling í kjölfarið undanþágur vegna sorphirðu umönnunar aldraðra og fatlaðra.

„Ég skal ekki segja,“ segir Viðar Þorsteinsson aðspurður hvort hann telji að undanþágurnar geti haft áhrif á samningsstöðu Eflingar við Reykjavíkurborg. „Þetta er ákvörðun sem er tekin af félagsmönnum út frá almannaheill.“

„Ég er bara mjög stoltur af okkar félagsmönnum að hafa verið tilbúnir að láta að hluta til frá sér kraft verkfallsvopnsins til að gera þetta. Auðvitað hugsar fólk alveg út í það hvort við séum mögulega að gefa eitthvað frá okkur með því, en ég held að fólk sé að horfa til þessara almannahagsmuna.“

Enginn fundur verið boðaður

Enginn fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara og kveðst Viðar ekki vita hvort standi til að boða til fundar í þessari viku. Þá staðfestir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar borgarinnar, að ekki hafi verið boðað til fundar og að engir vinnufundir séu í gangi. Efling hafi vísað deilunni til ríkissáttasemjara og þar sé hún stödd.

mbl.is

Bloggað um fréttina