Hvergi dýrara en á Íslandi

Nauðsynjar. Það kostar oft sitt að versla í matinn hér …
Nauðsynjar. Það kostar oft sitt að versla í matinn hér á landi. mbl.isBrynjar Gauti

Endurskoðaðar tölur frá Hagstofu Evrópu, Eurostat, benda til þess að verðlag hér á landi hafi árið 2018 verið 66 prósent hærra en að meðaltali í öðrum Evrópulöndum.

Þegar Eurostat birti í fyrrasumar samanburð á neysluútgjöldum heimila í löndum Evrópu árið 2018 kom fram að verðlag á Íslandi væri hæst, 56 prósent hærra en meðaltalið í löndum á evrópska efnahagssvæðinu, þannig að endurskoðun talnanna nú leiðir til verulegrar hækkunar. Fjallað var um þetta á vef Hagstofu Noregs í síðustu viku.

Þau lönd sem eru næstdýrust eru Sviss, Lúxemborg og Noregur. Einna lægst er verðlagið í löndunum á Balkanskaga, svo sem Albaníu og Norður-Makedoníu. Í Tyrklandi er það 62 prósent undir meðaltali Evrópulanda.

Matur og drykkur var dýrastur í Noregi og Sviss en Ísland var í þriðja sæti. Áfengi og tóbak var einnig dýrast í Noregi en Ísland var í öðru sæti. Samgöngur (bifreiðar og ferðalög) voru og dýrari í Noregi en hér. Aftur á móti voru heilbrigðisþjónusta, menning og tómstundir, skólaganga og hótel- og veitingaþjónusta hvergi dýrari en hér á landi samkvæmt þessum endurskoðuðu tölum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert