Tíu ný smit í dag

Tíu einstaklingar greindust í dag með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, fjórir í morgun og sex nú síðdegis. Er heildarfjöldi smitaðra því orðinn 26.

Þeir sem greindust í dag eru við góða heilsu en sýna þó einkenni. Allir þessir einstaklingar, þar á meðal þeir 10 sem greindust með veiruna í dag, voru á ferðalagi á Norður-Ítalíu eða Austurríki, og höfðu því fengið ráðleggingar um að vera í sóttkví.

Enn hafa engin smit greinst sem rekja má til innlendra smitleiða. Nú eru um 380 einstaklingar í sóttkví og unnið er að því að auka afkastagetu í greiningu smita á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

Smit greinast snemma og smitleiðum fækkar

„Það blasir við að á Íslandi hafa greinst mörg tilfelli miðað við höfðatölu og í alþjóðlegum samanburði. Það er mikilvægt að hafa huga í þessu samhengi að hér hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða, sem meðal annars taka til þess að setja fólk sem kemur frá áhættusvæðum í sóttkví, einangra veika, og taka sýni snemma hjá þeim sem fá einkenni, þótt væg séu,“ segir í tilkynningu.

„Það er mat sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra að það sé fyrst og fremst þessum aðgerðum að þakka að hér greinast smit snemma, með tilheyrandi fækkun á mögulegum smitleiðum í hverju staðfestu tilfelli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina