Starfsstöðvum í borginni lokað vegna neyðarstigs

Þjónusta borgarinnar og stjórnskipulag helst að mestu leyti óbreytt.
Þjónusta borgarinnar og stjórnskipulag helst að mestu leyti óbreytt. mbl.is/​Hari

Velferðarsvið Reykjavíkur hefur ákveðið að loka starfsstöðvum sem halda halda úti þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma. Er þetta gert með hliðsjón af neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19-veirunnar.

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar kom saman klukkan 16.00 í dag, þar sem viðbragðsáætlun borgarinnar fyrir neyðarstig var virkjuð. Í samræmi við viðbragðsáætlanir verða stjórnendur borgarinnar upplýstir um það og lagt fyrir að þeir upplýsi starfsfólk sitt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Er þetta gert vegna þess að fyrsta innanlandssmitið af kórónuveiru sem veldur COVID-19-sjúkdómi var staðfest í dag og almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi.

Þjónusta borgarinnar sem og stjórnskipulag mun að flestu leyti haldast óbreytt. Helsta breytingin snýr að velferðarsviði sem mun loka þeim starfsstöðvum og starfseiningum sem viðkvæmir einstaklingar sækja, líkt og áður sagði. Staðan er metin daglega og hugsanlega verða nýjar ákvarðanir um breytta þjónustu teknar á næstu dögum. Þá verða allir hluteigandi látnir vita þegar hægt verður að hefja starfsemi að nýju.

Eftirfarandi starfsstöðvum verður lokað:

Félagsstarf velferðarsviðs:

 • Árskógar
 • Gerðuberg
 • Sléttuvegur 11-13
 • Dalbraut 18-20
 • Dalbraut 21-27
 • Hæðargarður 31
 • Hvassaleiti 56-58
 • Borgir, Spöngin 43
 • Hraunbær 105
 • Aflagrandi 40
 • Bólstaðarhlíð
 • Vitatorg
 • Lönguhlíð
 • Norðurbrún
 • Furugerði

Dagdvalir fyrir aldrað fólk:

 • Þorrasel, Vesturgötu 7
 • Vitatorg, Lindargötu 79

Vinnu- og virknimiðuð stoðþjónusta fyrir fatlað fólk:

 • Gylfaflöt
 • Iðjuberg
 • Völvufell 11 (Opus)
 • Arnarbakki 2 (SmíRey)

Skammtímadvalir fyrir fötluð börn, ungmenni og fullorðna einstaklinga:

 • Skammtímadvöl Álfalandi 6
 • Skammtímadvöl Árlandi 9
 • Skammtímadvöl Eikjuvogi 9
 • Skammtímadvöl Holtavegi 2
 • Skammtímadvöl Hólabergi 86
 • Vesturbrún 17

Öll önnur þjónusta sviðsins er órofin sbr. öll heimaþjónusta, heimahjúkrun, stuðningsþjónusta, á hjúkrunarheimilum, í íbúðakjörnum og sambýlum sem og í gisti- og neyðarskýlum. 

Sóttvarnalæknir hefur ekki gefið út samkomubann þrátt fyrir neyðarstig almannavarna og ekki er mælt með að fella niður íþróttaviðburði eða mannamót, að svo komnu máli. 

Neyðarstjórnin fundar aftur á mánudag.

mbl.is