Ráðherra og sóttvarnalæknir vilja skimanir

Bæði sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra telja framlag Kára mikilvægt.
Bæði sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra telja framlag Kára mikilvægt. mbl.is/​Hari

Heilbrigðisráðherra ætlar að leggja sitt af mörkum til að Íslensk erfðagreining geti hafið skimanir fyrir kórónuveiru hér á landi, líkt og Kári Stefánsson hafði boðist til. En í gær greindi Vísindasiðanefnd/Persónuvernd frá því að Kári þyrfti að fá leyfi fyrir slíkum skimunum. Hann sagðist ekki ætla að sækja um leyfið enda taldi hann sig vera að fara að taka þátt í klínískri vinnu, ekki vísindarannsókn. Það yrði því ekkert af framlaginu.

Í facebookfærslu sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisrsáðherra birti í gærkvöldi kemur fram að hún og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir séu sammála um að tilboð Íslenskrar erfðagreiningar sé mikilvægt framlag til lýðheilsu og sóttvarna. „Við viljum leggja okkar af mörkum til að af framlagi ÍE geti orðið og trúum því að það geti gerst hratt,“ skrifar ráðherra.

Þá kemur fram í facebookfærslu Íslenskrar erfðagreiningar, sem einnig var birt í gærkvöldi, að fyrirtækið ætlaði sér aldrei að setja sýni sem aflað hefði verið vegna kórónuveiru, sem veldur COVID-19-sjúkdómnum, í lífsýnabanka fyrirtækisins, enda hefði það ekki verið í samræmi við lög.

„Einungis var boðin fram klínísk aðstoð við að taka og greina sýni úr fólki sem er með einkenni sem gætu bent til veirusýkingar. Raðgreining á sýnunum átti að leiða í ljós hvort þau væru að stökkbreytast. Íslensk erfðagreining greinir nú þegar um eitt þúsund sýni á ári frá Landspítalanum þar sem grunur leikur á sjaldgæfum erfðasjúkdómum eða veikindi eru af óþekktum orsökum. Sú samvinna hefur ekki verið leyfisskyld,“ segir í færslu Íslenskrar erfðagreiningar á Facebook.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert