Allt blásið af og starfsemin lömuð

Starfsmaður hjá Exton á ferðinni með ljósabúnað í Laugardalshöll.
Starfsmaður hjá Exton á ferðinni með ljósabúnað í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framkvæmdastjóri Exton segir að starfsemi fyrirtækisins sé „algjörlega lömuð“ vegna kórónuveirunnar.

Helmingur starfseminnar snýr að útleigu á tækjabúnaði vegna viðburða og hinn helmingurinn að sölu á búnaði og tækniþjónustu. Allt hefur meira og minna verið blásið af, að sögn Ríkharðs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Exton.

Á þeim tíu dögum sem eru liðnir af mánuðinum hafa verið skrifaðir út reikningar fyrir um 7-8% af veltunni í staðinn fyrir um 30% eins og venjan er. „Ég sé fram á að 80 til 90% af veltunni hverfur ef þetta leysist ekki,“ segir hann en vonar að viðburðirnir sem hefur verið frestað verði haldnir síðar. Á meðal þeirra eru afmælistónleikar Páls Óskars og árshátíð Össurar.

Vorkennir skemmtikröftum 

Exton er stærsta fyrirtæki landsins á þessu sviði. Þar eru þrjátíu starfsmenn, auk þess sem á milli 35 og 70 verktakar starfa fyrir það í hverjum mánuði. Flestir af fastastarfsmönnum sinna viðhaldi á meðan ástandið er eins og það er.

Hluti af starfsemi Exton er að þjónusta hjúkrunarheimili en þeim hefur verið lokað utanaðkomandi vegna veirunnar og því geta starfsmennirnir ekki farið þangað inn til að klára sín verkefni, þar á meðal að setja upp búnað.

Einnig eru hótel og aðrir ferðaþjónustuaðilar á meðal kúnna og svo virðist sem allt sé í frosti núna. „Það er rosalega misjafnt eftir geirum hvernig menn lenda í þessu en okkar geiri lendir illa í þessu,“ segir Ríkharð og bætir við að hann vorkenni skemmtikröftum og öðrum í tónlistariðnaðinum sem lenda illa í verkefnaskorti vegna veirunnar.

Sjálfur er Ríkharð í sóttkví eftir að hafa farið í skíðaferð til Ítalíu.

Kórónuveiran hefur haft víðtæk áhrif hér á landi sem og …
Kórónuveiran hefur haft víðtæk áhrif hér á landi sem og annars staðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðtæk áhrif á HljóðX

Ingólfur Arnarson, framkvæmdastjóri HljóðX, segir kórónuveiruna hafa víðtæk áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Það starfar bæði á fyrirtækjamarkaði og í leigu á búnaði og hefur meira og minna allt stöðvast í leigunni. Hann segir að áhrifin eigi líklega eftir að koma frekar í ljós varðandi uppsetningar á búnaði fyrir hótel.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta myndi detta niður um 30-40%,“ segir hann spurður út í mögulegt tekjutap í mars.

Á meðal verkefna sem hefur verið frestað sem HljóðX var með á sinni könnu var sýningin Verk og vit í Laugardalshöll, ásamt söngvakeppnum hjá skólum. Ellefu starfsmenn eru hjá fyrirtækinu og eru þeir allir að störfum, að sögn Ingólfs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert