Tvær vikur í einangrun fyrir hunda og ketti

AFP

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað nýja reglugerð um innflutning hunda og katta. Lágmarkstími fyrir einangrun dýranna við innflutning verður nú að lágmarki tvær vikur í stað fjögurra. Reglugerðin heimilar einnig að einangrun tiltekinna hjálparhunda fari fram í heimaeinangrun.

„Með þessum breytingum er verið að stuðla að skilvirkara ferli við innflutning hunda og katta en um leið tryggja heilbrigði dýra og manna. Með reglugerðinni er því ekki verið að slaka á kröfum heldur er öðrum aðferðum beitt til þess að halda uppi sömu eða jafnvel betri vörnum gegn smitsjúkdómum en nú er gert,“ segir ráðherra í tilkynningu.

Reglugerðin hefur það að markmiði að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins. Reglugerðin er afrakstur nýs áhættumats um innflutning hunda og katta til landsins, sem unnið var af Preben Willeberg, fyrrverandi yfirdýralækni Danmerkur, að beiðni ráðuneytisins. Þá hefur Matvælastofnun einnig skilað ítarlegri skýrslu byggðri á vinnu Willeberg og lagt til þær breytingar sem tilgreindar eru í reglugerðinni, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins. 

Reglugerðin var í opnu samráði á samráðsvef stjórnvalda dagana 20. desember til 3. janúar sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert