Færumst sífellt nær samkomubanni

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma D. Möller landlæknir á …
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma D. Möller landlæknir á blaðamannafundinum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum sagt það undanfarna daga að við færumst æ nær samkomubanni.“ Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi vegna kórónuveirufaraldursins í gær. Alls höfðu 117 manns greinst með veiruna hér á landi í gær.

„Verum yfirveguð og látum ekki slá okkur út af laginu,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn stuttu síðar, en eins og Þórólfur minntist á hefur mikið verið rætt hér um samkomubann þó að til þess hafi ekki komið enn.

Sagði Þórólfur samkomubann vera eina leið til viðbótar við þær aðgerðir sem hefur þegar verið ráðist í til að hefta smit veirunnar en óljóst væri hvernig ætti að beita slíku banni. Margar mismunandi útfærslur kæmu til greina. Benti hann í þessu tilliti á að Norðurlöndin hafi beitt mjög mismunandi aðferðum. Aukinheldur sagði Þórólfur að samkomubann væri „mjög viðkvæmt og pólitískt tæki“ en það væri eitt af tólunum sem væri framarlega í röðinni þegar „við missum tökin á smitunum“. Bætti hann hins vegar við að samkvæmt fræðunum væru meðvitaðar aðgerðir fyrirtækja og einstaklinga til að minnka smithættu þær sem skiluðu mestum árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert