Samkomubann tekur gildi á Íslandi

Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á einum af fjölmörgum upplýsingafundum …
Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á einum af fjölmörgum upplýsingafundum embætti landlæknis og almannavarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar klukkan sló eina mínútu yfir miðnætti gekk samkomubann í gildi á Íslandi, en það mun standa næstu fjórar vikurnar eða til 13. apríl kl. 00:01.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins sem slíkt bann er sett, en markmiðið er að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem fer nú um heiminn eins og eldur í sinu.

Með sam­komu­banni er átt við skipu­lagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma sam­an. Við öll minni manna­mót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metr­ar og að aðgengi að handþvotti og hand­spritti sé gott.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi á fimmtudaginn að hún hefði að til­lögu sótt­varna­lækn­is ákveðið að virkja heim­ild­ir sótt­varna­laga til að takmarka sam­kom­ur í fjór­ar vik­ur frá miðnætti 15. mars, þ.e.a.s. sam­komu­bann.

Nú er bara að taka því sem mest rólega heima …
Nú er bara að taka því sem mest rólega heima eins og kostur er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á sama fundi sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að þetta væri í fyrsta sinn í lýð­veld­is­sög­unni sem slík ráð­stöf­un hefði verið lögð til. „Mark­miðið er hér eftir sem hingað til að hemja útbreiðslu veirunn­ar, koma í veg fyrir að far­ald­ur­inn gangi of hratt yfir, standa vörð um þá sem eru útsett­astir fyrir þess­ari sýk­ingu og tryggja að heil­brigð­is­kerf­ið stand­ist þetta álag.“

Upplýsingasíða almannavarna og landlæknis um kórónuveiruna COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert