Náði mögnuðu myndbandi af fálka tæta í sig bráð

Pétur Þór Halldórsson náði í dag mögnuðu myndbandi af fálka rífa í sig, það sem hann heldur að sé grágæs, uppi á þaki á húsinu á móti þar sem hann býr í Skuggahverfinu.

Það hafa reyndar skapast töluverðar umræður um það í vinahópi Péturs hvort þetta sé fálki eða ungur haförn, en Pétur hallast að því fyrrnefnda. Þá eru menn nokkuð sammála um að bráðin sé grágæs. Það var alla vega töluvert fiður sem þyrlaðist upp þegar fuglinn byrjaði að tæta bráðina í sig.

„Ég er að vinna heima og sat með tölvurnar og skjáina og sá hann allt í einu standa rétt hjá mér. Ég skutlaðist út á svalir því ég trúði þessu varla. Hann var svo rólegur, samt sá hann mig alveg, en honum var alveg sama.“

Fuglinn tók sér góðan tíma í að gæða sér bráðinni en Pétur heldur að hann hafi verið að í um tvo tíma áður en hann flaug á brott. „Hann var sallarólegur, tók sér pásu reglulega og horfði á útsýnið og hjólaði svo aftur í matinn.“

Þegar fálkinn var nýfarinn kom hrafn fljúgandi, en Pétur telur að það hafi varla liðið mínúta áður en hann var mættur beint í afgangana. „Hann settist en um leið og ég kíkti á hann þá fór hann. Svo kom hann reyndar aftur og tók hræið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert