Flugleiðir til landsins gætu lokast

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hvetur Íslendinga sem eru erlendis til að huga að heimkomu sem allra fyrst, ætli þeir til Íslands. Hætta er á því að flugsamgöngur til landsins verði lokaðar um næstu mánaðamót.

Þetta kom fram í færslu utanríkisráðherra á Facebook í gær.

Guðlaugur bendir á að nú þegar séu flugsamgöngur afar takmarkaðar. Þeir Íslendingar sem ætli heim þurfi að snúa heim strax, skrá sig í grunn borgaraþjónustunnar og hafa beint samband ef þeir verða strandaglópar.

„Frá því um síðustu helgi hefur borgaraþjónusta utanríkisþjónustunnar svarað um tvö þúsund erindum og miðlað upplýsingum til rúmlega níu þúsund manns sem skráðir eru í gagnagrunn borgaraþjónustunnar sem fór í loftið 25. febrúar vegna COVID-19,“ skrifar Guðlaugur.

mbl.is