Á sjötta tug nýrra starfsmanna

Nettó rekur netverslun og er miklu meira að gera þar …
Nettó rekur netverslun og er miklu meira að gera þar en áður. mbl.is/RAX

Nettó hefur ráðið inn á sjötta tug nýrra starfsmanna vegna mikillar eftirspurnar í netverslun fyrirtækisins. Þar á meðal hafa tuttugu bílstjórar verið ráðnir og yfir 10 nýir bílar keyptir til viðbótar við þá sem fyrir eru af fyrirtækinu aha, samstarfsaðila Nettó í netversluninni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Viðskiptavinir okkar hafa verið einkar skilningsríkir á þessum óvissutímum og þeir eiga hrós skilið. Það hafa komið tímabil þar sem töf hefur orðið of mikil þar sem innviðir okkar réðu einfaldlega ekki við álagið. Á hverjum degi koma nýjar áskoranir og okkur hefur tekist að aðlaga verkferla okkar og skipulag að þessum breyttu aðstæðum. Eins og staðan er nú er allt að tveggja sólahringa bið eftir afgreiðslu hjá okkur en það er heldur stuttur tími samanborið við Danmörku og England þar sem er allt að tveggja vikna bið eftir matvörum úr netverslun,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, í fréttatilkynningu.

Nýlega hóf Nettó að keyra út vörur í Borgarnesi og á Selfossi. „Okkur hefur verið tekið opnum örmum bæði í Borgarnesi sem og á Selfossi. Nú erum við að skoða með hvaða hætti við getum stækkað netverslun okkar til að mæta þeirri auknu eftirspurn sem við spáum næstu vikur og mánuði. Ástandið nú hefur ýtt undir vitund fólks á að geta almennt pantað dagvöru gegnum netið, fá hana heimsenda eða sækja í verslun. Mig grunar að fólk um land allt eigi eftir að horfa öðruvísi á innkaup á dagvöru þegar við komumst í gegnum þessa fordæmulausu tíma og hlutfall netverslunar ná áður óþekktum hæðum,“ segir Gunnar enn fremur í fréttatilkynningu.

mbl.is