Konu bjargað úr sjónum

Lögreglumaður synti og sótti konuna í sjónum.
Lögreglumaður synti og sótti konuna í sjónum. mbl.is/Hallur Már

Kona hafði samband við Neyðarlínuna um tvö í nótt og tilkynnti að það væri maður í sjónum við Suðurbugt við gömlu höfnina í Reykjavík. Er lögregla kom á vettvang var konan sjálf fljótandi í sjónum og synti lögreglumaður að konunni og færði hana í land. Sjúkraflutningsmenn hlúðu síðan að konunni og fluttu hana á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar.

Tilkynnt var um þjófnað úr búningsherbergi líkamsræktarstöðvar í Austurbænum (hverfi 108) í gærkvöldi en þar hafði verið stolið þremur farsímum. Málið er í rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Brotist var inn í tvær bifreiðar í Hafnarfirði í nótt. Ekki liggur fyrir hverju hafði verið stolið úr bílunum en rúður voru brotnar í þeim báðum.

Lögreglumenn lögðu hald á kannabisplöntur og tæki til fíkniefnaframleiðslu í húsleit í Kópavogi í nótt. Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar um hversu mikið magn var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert