Apríl og maí gætu slegið met í atvinnuleysi

Gangi þessar spár eftir verður atvinnuleysi í apríl og maí …
Gangi þessar spár eftir verður atvinnuleysi í apríl og maí það mesta sem sést hefur í einstökum mánuðum frá því farið var að halda skipulega utan um atvinnuleysisskráningu um 1980. mbl.is/Hari

Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi aukist í 10-11% nú í apríl og maí, bæði vegna fjölgunar almennra umsókna um atvinnuleysisbætur, en fyrst og fremst þó vegna fjölda þeirra sem eru að sækja um vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Bent er á að gert sé ráð fyrir að um 19.000 manns muni sækja um greiðslur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Nú þegar séu komnar yfir 10 þúsund umsóknir um slíkar greiðslur og því líklegt að sú spá gangi eftir.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi lækki nokkuð skarpt aftur yfir sumarmánuðina og verði milli 6 og 7% í september. Því er spáð að meðalatvinnuleysi ársins 2020 verði um 7,4%, en óvissumörk á þeirri tölu eru eðlilega mikil.

Gangi þessar spár eftir verður atvinnuleysi í apríl og maí það mesta sem sést hefur í einstökum mánuðum frá því farið var að halda skipulega utan um atvinnuleysisskráningu um 1980. Hins vegar er gert ráð fyrir að þetta verði fremur tímabundið ástand og að atvinnuleysi muni lækka nokkuð hratt á komandi misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert