Fjögur og hálft ár fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun, frelsissviptingu og stórfellt brot í nánu sambandi. Hann var einnig dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu tvær milljónir króna í miskabætur en farið var fram á að hann greiddi tvær og hálfa milljón. Sömuleiðis var hann dæmdur til að greiða rúmar tvær milljónir króna í sakarkostnað.

Málið var höfðað með ákæru héraðssaksóknara í október í fyrra. Maðurinn var sakaður um að hafa aðfaranótt laugardagsins 30. júní 2018 ráðist að fyrrverandi kærustu sinni í og við bifreið með ofbeldi. Hann var sakaður um að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis með því að beita hana ofbeldi og hótunum og svipt hana frelsi í að minnsta kosti tvær til fjórar klukkustundir.

Maðurinn neitaði sök og sagði sig og konuna hafa haft samræði þennan dag með samþykki beggja. Að mati héraðsdóms taldist framburður mannsins ekki trúverðugur. Framburður konunnar þótti aftur á móti trúverðugur.

Fram kemur að á milli mannsins, konunnar og barna hennar höfðu myndast töluvert náin tengsl. Höfðu þau verið í sambandi í meira og minna fjóra mánuði þegar þarna var komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert