Kynna sértækar aðgerðir á næstu dögum

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við munum vinna hratt til þess að bregðast við og á næstu dögum kynnum við sértækar aðgerðir,” segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, en hann ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Aldísi Hafsteinsdóttur, formanns stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, ritaði í síðustu viku undir samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir sem miða að því að takast á við þær áskoranir sem stofnanir ríkisins, félagsþjónusta og aðrir aðilar sem sinna þjónustu við viðkvæma hópa í landinu standa frammi fyrir vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Með yfirlýsingunni er boðað til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land svo tryggja megi öryggi og nauðsynlega þjónustu fyrir þá sem mest þurfa á henni að halda, svo sem fatlað fólk, aldraðir og börn og fjölskyldur.

Fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að viðbragðsteymið hafi í gær haldið sinn fyrsta formlega fund með ráðherrum og formanni stjórnar Sambands íslenskra sveitafélaga, þar sem farið var yfir helstu áskoranir og tilteknar aðgerðir lagðar til.

Ætli að grípa vel og örugglega utan um viðkvæma hópa

„Tillögur teymisins voru tvíþættar og vörðuðu í fyrsta lagi þær aðgerðir í þágu barna og fjölskyldna vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í íslensku samfélagi vegna kórónavírusins og í öðru lagi aukið aðgengi almennings að ráðgjöf og stuðningi. Tillögur teymisins að aðgerðum voru samþykktar og var ákveðið að veita 15 milljónum króna til verkefnisins að svo stöddu. Verða þær aðgerðir kynntar nánar á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags-og barnamálaráðherra, að þau ætli sér að grípa vel og örugglega utan um viðkvæma hópa í þessum fordæmalausu aðstæðum.

mbl.is

Kórónuveiran

30. mars 2020 kl. 14:16
1086
hafa
smitast
157
hafa
náð sér
30
liggja á
spítala
2
eru
látnir