„Hélt að Ísland væri ekki svona“

Ólafur Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku og KÚ.
Ólafur Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku og KÚ. Ljósmynd/Eyþór Árnason

„Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir æðstu starfsmönnum Mjólkursamsölunnar enda þyngsti dómur sem hefur fallið í samkeppnismálum hér á landi.“ Þetta segir Ólafur M. Magnússon, fyrrverandi eigandi mjólkurbúanna KÚ og Mjólku.

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms þess efnis að Mjólkursamsölunni beri að greiða 480 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota á samkeppnislögum. Fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu með því að selja keppi­naut­um sín­um grund­vall­ar­hrá­efni, hrámjólk, til fram­leiðslu á mjólk­ur­vör­um á mun hærra verði en MS sjálf og tengd­ir aðilar þurftu að greiða.

Upp komst um málið árið 2012 er Mjólkursamsalan sendi fyrir slysni reikning á KÚ, sem ætlaður var mjólkurbúinu Mjólku, sem Ólafur hafði áður stofnað en var á þessum tíma komið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Er hann opnaði umslagið sá hann þar svart á hvítu að Mjólka greiddi 17% lægra verð fyrir hrámjólkina en hans eigið fyrirtæki.

„Í ljósi þess ákveð ég að fara niður í Samkeppniseftirlit og leggja þessi gögn fram sem kærumál,“ segir Ólafur. Upphófst þá átta ára barátta sem nú sér sennilega fyrir endann á. 

„Þetta var mjög sársaukafullt fyrir okkur og við gengum í gegnum miklar hremmingar sem bitnuðu á fjölskyldum okkar og lánardrottnum,“ segir Ólafur. Hann segir Mjólkursamsöluna hafa beitt öllum brögðum til að teygja á málinu og að hann hafi þurft að vinna hluta málsins sjálfur til að spara lögfræðikostnað.

Haft skjól í Samkeppniseftirlitinu

Í júlí 2016 komst Sam­keppnis­eft­ir­litið að þeirri niður­stöðu að MS hefði með al­var­leg­um hætti brotið gegn banni 11. gr. sam­keppn­islaga við mis­notk­un á markaðsráðandi stöðu, og var Mjólkursamsölunni gert að greiða 480 milljónir króna í sekt, þar af 40 milljónir vegna brota á lögum um upplýsingaskyldu.

Mjólkursamsalan áfrýjaði málinu til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála, sem felldi úrskurð eftirlitsins úr gildi. Ólafur hefur sitt hvað út á áfrýjunarnefndina að setja. 

„Stjórnsýslan öll hefur verið á bandi hagsmunaaðila og því miður virðist sem að í landbúnaðarráðuneytinu séu flestir vinnumenn hjá mjólkuriðnaðinum,“ segir hann. Þá segir hann ótrúlegt að „vinnumaður Bændasamtakanna“, Stefán Már Stefánsson lögfræðingur, skuli hafa átt sæti í nefndinni en hann hefur oft unnið fyrir Bændasamtökin, til að mynda við gerð lögfræðiálits vegna aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið

Höfuðstöðvar MS í Reykjavík.
Höfuðstöðvar MS í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkeppniseftirlitið áfrýjaði úrskurði nefndarinnar til héraðsdóms, sem sneri honum aftur við og dæmdi Mjólkursamsöluna brotlega, líkt og Samkeppniseftirlitið hafði gert. „Við höfum sem betur fer haft skjól í Samkeppniseftirlitinu og hjá dómstólum sem hafa staðið vörð um sjálfstæði sitt og lögin í landinu.“

Vill Mjólkursamsölunni vel

Ólafur segir að Mjólkursamsalan hafi alla tíð viljað bregða fæti fyrir rekstur hans. „Þegar ég byrjaði á rekstri Mjólku hélt ég að Ísland væri ekki svona. Við værum óflekkuð og óspillt þjóð.“ Hann hafi hins vegar orðið fyrir áfalli er hann áttaði sig á hve sterk hagsmunaöfl eru í landinu. „Þeir sem rugga bátnum eru gerðir að ómerkingum.“

Ólafur segir þó að sér sé ekki illa við Mjólkursamsöluna. „MS er lykilfyrirtæki fyrir íslenska bændur og skjól þeirra til að koma afurðum sínum á markað. En ég vil geta keppt við þá á jafnréttisgrundvelli.“

Uppfært 11:05
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að iðnaðarráðherra hefði í janúar lagt fram frumvarp þar sem felld yrði niður heimild Samkeppniseftirlitsins til að áfrýja úrskurðum áfrýjunarnefndar til dómstóla. Hið rétta er að fallið var frá þeirri hugmynd.  

mbl.is