Allt að 12°C þar sem hnjúkaþeys gætir

Veðrinu fylgir einhver væta, en á Suðausturlandi má hins vegar …
Veðrinu fylgir einhver væta, en á Suðausturlandi má hins vegar búast við allt að 12°C hita í dag vegna hnjúkaþeys. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loftþrýstingur yfir landinu er nú með allra mesta móti, líkt og í gær, en það helgast af hæð sem heldur sig suður af landinu. Hefur hún lítið gefið eftir og mun halda að landinu suðvestanátt í dag. Búast má við 13-20 m/s norðan- og austanlands og hvassara í vindstrengjum við fjöll, en hægari vindi á Suður- og Vesturlandi.

Þessu veðri fylgir rigning eða súld á vestanverðu landinu, en bjartviðri á austanverðu landinu. Þá fylgir þessu milt loft sem berst sunnan úr Atlantshafi, en hitatölur í dag verða víða 4 til 6 stig, en allt að 12 stig þar sem hnúkaþeys gætir segir á vef Veðurstofunnar.

Á morgun bætir síðan heldur í vind og úrkomu en áfram verður hlýtt á landinu. Er líður á vikuna tekur þó að kólna og útlit er fyrir norðanáttir með éljum og talsverðu frosti.

Á morgun má gera ráð fyrir suðvestan 15-23 m/s á norðanverðu landinu, en 8-15 m/s sunnantil. Rigning eða súld á vesturhelmingi landsins en annars bjart. Hiti 3 til 11 stig.

Þegar líður á vikuna mun svo kólna og á þriðjudaginn verður við frostmark og á fimmtudaginn má búast við frosti víðast hvar, en þá verður einnig norðanátt.

mbl.is