Fólk í einangrun fram að niðurstöðu sýnatöku

Ragnheiður Ósk Erlendisdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fyrir miðju.
Ragnheiður Ósk Erlendisdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fyrir miðju. Ljósmynd/Lögreglan

Fólk sem farið hefur í sýnatöku hjá heilsugæslu vegna gruns um kórónuveirusmit á að vera í einangrun þar til niðurstaða sýnatökunnar liggur fyrir. Á þetta benti Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Sagði hún dæmi um að fólk kæmi í sýnatöku í sérstökum sýnatökubíl heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar ætlaði sér síðan að sinna erindum að sýnatöku lokinni.

Einungis fólk með einkenni smits fær að fara í sýnatökur heilsugæslunnar, en Ragnheiður sagði á fundinum að fólki sé einnig forgangsraðað með tilliti til sjúkrasögu og þess hvar það starfar. Þannig fái heilbrigðisstéttir og aðrir í framlínustörfum forgang.

Mikið hefur mætt á starfsmönnum heilsugæslustöðva undanfarnar vikur. Um 7.000 símtöl berast heilsugæslunni á hverjum degi auk 500-1000 netspjalla. Sinna flestir starfsmenn heilsugæslustöðva nú upplýsingagjöf.

Ragnheiður benti fólki enn fremur á að hringja ekki ef komast má hjá því. Þannig megi til dæmis útvega sér vottorð um sóttkví á heilsuvera.is og því óþarft að hringja, búi menn svo vel að eiga rafræn skilríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert