Víðir áfram fúll vegna fjölda brota á samkomubanni

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hellingur“ var um tilkynningar í nótt og í morgun vegna brota á samkomubanni og dæmi var um æfingu íþróttafélags þar sem 50 manns voru saman komin á æfingu. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns  á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Víðir sagðist áfram vera fúll vegna brota á banninu, en á fundinum í gær lýsti hann yfir vonbrigðum vegna mikils fjölda brota aðfaranótt laugardags.

Víðir sagði að tilkynningar hefðu bæði borist í nótt og í morgun, meðal annars um staði þar sem dagskrá var í gangi. Þá hafi fjórar tilkynningar borist vegna starfs íþróttafélaga, þrátt fyrir ítrekun ÍSÍ um að hafa ekki slíka dagskrá. Nefndi hann sérstaklega dæmi um 50 manna æfingu.

„Veiki hlekkurinn erum við“

Víðir segist einnig hafa farið í vettvangsferð í búðir í gær og að hlutirnir hafi verið í mjög góðu lagi hjá verslunum. Hins vegar hafi fólk almennt verið vandamálið. Þannig hafi verið fylgt eftir fjarlægðarmörkum þegar starfsfólk búðanna var að leiðbeina fólki, en strax og það fór frá hætti fólk að virða mörkin og fór að ryðjast að kössum.

„Veiki hlekkurinn erum við,“ sagði Víðir og sagði að hann hefði hingað til talið sektir vegna brota á banninu vera algjört neyðarúrræði. „En við þurfum mögulega að skipta um skoðun.“ Sagði hann að engum sektum hefði enn verið beitt, en að komið væri að því. Hefði það verið í undirbúningi síðan á föstudag þegar ríkissaksóknari gaf út leiðbeiningar um slíkar sektir.

mbl.is