Bætir enn í suðvestanáttina

Kort/Veðurstofa Íslands

Ekkert lát er á suðvestanáttinni sem ráðið hefur ríkjum á landinu um helgina, frekar bætir í vindinn í dag og þá sér í lagi norðan heiða. Súld verður vestan til á landinu, en annars bjart með köflum. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Á morgun dregur úr vindi en áfram mun vera vætusamt um landið vestanvert og eftir hádegi færist úrkoman austur yfir landið. Annað kvöld mun síðan draga úr úrkomu og kólna.
Seint á miðvikudag snýst síðan í norðlægar áttir með snjókomu norðanlands og talsverðu frosti í öllum landshlutum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðvestan 15-23 m/s á norðanverðu landinu, 8-15 sunnan til, en hvassara í vindstrengjum við fjöll. Rigning eða súld á vesturhelmingi landsins en annars bjart. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Suðvestan 8-15 m/s á morgun, en hvassara með suðurströndinni. Rigning, en skýjað með köflum og dálítil súld austanlands. Hiti 1 til 8 stig. Dregur úr úrkomu og kólnar annað kvöld.

Á þriðjudag:

Vestan 8-13 m/s og rigning, en að mestu þurrt austast. Hiti 1 til 7 stig.

Á miðvikudag:
Stíf vestlæg átt og él, en þurrt að kalla austanlands. Snýst í allhvassa eða hvassa norðanátt um kvöldið með snjókomu fyrir norðan en léttir til syðra. Kólnandi.

Á fimmtudag:
Hvöss norðanátt með snjókomu, en bjartviðri syðst. Dregur úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Talsvert frost víðast hvar.

Á föstudag:
Norðan strekkingur og él fyrir norðan og austan, en léttskýjað annars staðar. Talsvert frost.

Á laugardag:
Minnkandi norðanátt, dálítil él norðan- og austanlands en annars léttskýjað. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt, stöku él með norður- og austurströndinni, en annars léttskýjað. Kalt í veðri.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert