Vel birgur við ritgerðaskrif í veirunni

Bjarni Halldór ákvað að vera um kyrrt í York í …
Bjarni Halldór ákvað að vera um kyrrt í York í Englandi, þar sem hann er við nám. Inni í stúdíóíbúð sinni hefur hann enga afsökun fyrir því að standa ekki skil á ritgerðum á réttum tíma. Ljósmynd/Aðsend

Bjarni Halldór Janusson, fv. varaþingmaður Viðreisnar, er í meistaranámi í stjórnmálaheimspeki í Bretlandi og hefur verið þar síðan í haust. Hann er með bakaðar baunir, núðlur og klósettpappír í traustvekjandi magni til reiðu í íbúð sinni og hyggst þar þreyja þorrann og góuna uns yfir lýkur. Og hvað „yfir lýkur“ þýðir nákvæmlega veit auðvitað enginn.

Bjarni er þó bjartsýnn á komandi vikur og mánuði í herbergi sínu í York, um 200 þúsund manna friðsælli borg á Norður-Englandi. Meistaranámið hans er eitt ár og sem vonlegt er kemur að skuldadögum nú á lokasprettinum. Hann er að skrifa þrjár lokaritgerðir nú í apríl og maí og svo skrifar hann meistararitgerð í sumar.

Flestir í hans stöðu hafa tekið pokann sinn og álpast heim á leið en Bjarni sá ekki ástæðu til þess, heldur þvert á móti. „Ef ég væri að koma heim upp úr þessu þá eru í rauninni bara meiri líkur á að ég smitist. Þessar ritgerðir hætta líka ekkert að hanga yfir mér og hérna í útgöngubanninu eru bara meiri líkur á að ég drífi í þeim. Hér hef ég enga ástæðu til að slá þeim á frest alla vega,“ segir Bjarni.

Bjarni telur sig í góðum höndum í York. Borgin er …
Bjarni telur sig í góðum höndum í York. Borgin er rólegri en margar aðrar enda laus við alþjóðaflugvöll og höfn. Hér er hann ásamt Karli Ólafi Hallbjörnssyni vini sínum. Ljósmynd/Freyja Ingadóttir

Hillurnar tæmdust áður en þær fylltust

Útgöngubann tók gildi í Bretlandi síðasta mánudag. Yfirvöld sáu sig að sögn Bjarna tilneydd til þess að grípa til þess ráðs þar sem áréttingar um fjarlægð milli fólks báru ekki árangur. „Bretar hlýddu ekki, þeir voru bara að skella sér á pöbbinn og slíkt; tóku þetta einfaldlega ekki alvarlega,“ segir Bjarni.

Hann varð var við þá tilhneigingu í York, jafnvel þótt íbúar þar séu sýnu stilltari en til dæmis í London. Þrátt fyrir trega í fyrstu tóku menn að sögn Bjarna umsvifalaust við sér þegar útgöngubann var sett á. Að morgni fyrsta dags í banninu fór Bjarni að kaupa í matinn og kom þá að fyllri matvöruverslunum en hann hafi séð. „Maður er náttúrlega ekki vanur því í velmegunarríki að sjá tómar hillur í verslunum. Að sjá klósettpappírslausar verslanir var því svolítið merkilegt, ekki síst náttúrlega í ljósi þess að það eru augljóslega margar vörur nauðsynlegri í þessu ástandi,“ segir Bjarni.

Hann fylgdist síðan með starfsfólki verslunarinnar fylla aftur á tómar hillur með hreinlætisvörum og viðskiptavinum í viðbragðsstöðu, raunar svo, að vörurnar rötuðu ekki í hillurnar, heldur beint í hendur viðskiptavina.

Bretar mitt á milli Bandaríkjamanna og Íslendinga

Bjarni segir að komi til þess hafi hann tilskilin réttindi að heilbrigðisþjónustu á staðnum. Ólíklegt sé að ástandið verði krítískt í York, þar sem enginn alþjóðaflugvöllur er og engin höfn, og smit þaðan af færri en víða annars staðar. Ef hann ferðaðist annað, eins og heim, væri hann þannig í raun að útsetja sig fyrir smiti.

Viðbrögð Breta segir Bjarni að hafi verið hæg, þó að ekki sé þeim saman að jafna við þau vestanhafs í Bandaríkjunum, sem kváðu hafa einkennst af miklum seinagangi. „Það má segja að Bretland falli mitt á milli Bandaríkjanna og Íslands í þessu. Veiran er ekki komin jafnlangt á leið hér og þetta er í rauninni að skella á ögn síðar en til dæmis á Íslandi. Hér á þetta að ná hámarki í maí,“ segir Bjarni.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sjálfur með Covid-19. „Stöndum vörð …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sjálfur með Covid-19. „Stöndum vörð um opinbera heilbrigðiskerfið“ var viðkvæðið á blaðamannafundi hjá honum fyrr í vikunni. AFP

Þegar róðurinn þyngist telur Bjarni óljóst hvernig opinbera heilbrigðiskerfið breska, NHS, er í stakk búið að bregðast við. Ljóst sé að undirfjármögnun hefur þegar sett mark sitt á innviðina, eins og varð kosningamál í þingkosningum í lok síðasta árs. Kórónuváin stendur því fyrir dyrum þar sem ástandið var þegar bágborið.

Bjarni verður sjálfur um kyrrt í bili og metur ástandið eftir því sem málum vindur fram. Hann segir óneitanlega betri tilhugsun að vera á Íslandi, þar sem tekist hefur verið á við ástandið af „meiri fagmennsku, skilningi og samtakamætti“ en í Bretlandi, en telur sig engu að síður á öruggum stað. Hann reynir að vera í sem mestum samskiptum við fólkið sitt heima og þess á milli einbeita sér að ritgerðarskrifum. Til marks um fábreytni daganna þótti honum þó ágætlega hressandi að spjalla við blaðamann, því allt spjall er gott spjall.

mbl.is