„Fólk liggur ekkert á skoðunum sínum“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

„Það er engin óeining um að launahækkanirnar eiga að halda,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Hann segir hins vegar ekki samstöðu innan Alþýðusambands Íslands um hvort ætlunin sé að krefjast aðgerðapakka til að létta enn frekar undir með fyrirtækjum á óvissutímum vegna kórónuveirufaraldursins.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafi fundað undanfarna daga vegna mögulegra frestunar launahækkana sem eiga að koma til framkvæmda á morgun. Ragnar segir að einhugun sé innan verkalýðshreyfingarinnar um að ekki komi til greina að fresta þessum hækkunum.

Samkvæmt heimildum mbl.is var töluverður hiti á fundi ASÍ í gærkvöldi og endaði það með því að Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi gengu af fundinum.

Ragnar Þór vildi ekkert tjá sig um það en segir morgunljóst að ekki sé eining innan ASÍ um leiðir að markmiðinu; að verja hagsmuni síns hóps.

„Fólk liggur ekkert á skoðunum sínum og skoðanaskiptin eru oft á tíðum mjög hreinskiptin,“ segir Ragnar Þór og heldur áfram:

„Það er alltaf einhver núningur í gangi þegar kemur að verkalýðshreyfingunni, stjórnvöldum eða atvinnulífinu. Það er enginn ágreiningur um að launahækkanir haldi en það er verið að ræða mögulegar aðgerðir, hvernig getum við sem verkalýðshreyfing ásamt stjórnvöldum bætt í? Hvernig getum við bætt í og hvar og hvað getum við gert til að verja betur hagsmuni okkar fólks? Hvað geta atvinnurekendur gert til að verja hagsmuni fyrirtækjanna og hvað geta stjórnvöld komið með að borðinu.“

Spurður hvað SA hafi komið með að borðinu segir Ragnar Þór að þaðan hafi komið tvennar hugmyndir:

„Annað hvort að reyna að fresta launahækkunum, sem kemur ekki til greina af okkar hálfu, eða komast að einhverri núlllausn með eftirgjöf af launatengdum gjöldum. Það hefði verið frekar hugmynd heldur en hitt. Við erum ekki alveg fallin alveg á tíma þar sem launahækkanir koma ekki til útgreiðslu fyrr en um mánaðamótin apríl/maí,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir að staðan sé alvarleg en vonast til þess að hægt verði að komast að farsælli niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert