Tvímælalaust hetjurnar í faraldrinum

Starfsfólk Landspítalans vinnur dag og nótt við að bjarga mannslífum.
Starfsfólk Landspítalans vinnur dag og nótt við að bjarga mannslífum. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson Landspítali.

Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir við Landspítalann, segir hjúkrunarfræðinga tvímælalaust vera hetjurnar í kórónuveirufaraldrinum. Á sama tíma séu þeir samningslausir og laun þeirra skert til að ná fram sparnaði á spítalanum. Þetta kemur fram í færslu Tómasar á Facebook í kjölfar skrifa hjúkrunarfræðings sem vonar að launaseðillinn sé aprílgabb.

Bergrós Kristín Jóhannesdóttir, sérnámslæknir í æðaskurðlækningum á Haukeland sjúkrahúsinu í …
Bergrós Kristín Jóhannesdóttir, sérnámslæknir í æðaskurðlækningum á Haukeland sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi og Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Tómasar eru hjúkrunarfræðingar í langmestri snertingu við sjúklingana. „Þá er ég ekki að gera lítið úr hlutverki félaga minna; gjörgæslu- og smitsjúkdómalækna eða lungna-, bráðamóttöku- og heimilislækna — sem allir skipa framvarðasveitina. Síðan er fjöldi annarra stétta líka sem kemur við sögu. En aftur að hjúkrunarfræðingunum — hetjunum sem enn eru samningslausar eftir árs samningaviðræður. Til að bæta gráu ofan á svart voru laun þeirra skert rétt áður en COVID-faraldurinn skall á — og það til að ná auknum sparnaði á LSH.

Þetta gerist á vakt VG sem reifir sögðust ætla að styðja sérstaklega við kvennastéttir í þessari ríkisstjórn. Það er eitthvað mikið rangt við þetta allt saman — ekki síst núna — að þessi hámenntaða stétt — sem bókstaflega hættir lífi sinu til að bjarga öðrum — skuli endurtekið fá svona kaldar tuskur í andlitið.

Erlendis er verið að borga sömu hjúkrunarfræðingum ríflega bónusa — enda verður þessi faraldur ekki unninn án þeirra. Koma svo — og ekki segja mér að ómögulegt sé að semja vegna launaskriðs á almennum vinnumarkaði. Það er gömul lumma og þreytt. Allir sjá núna — og hefðu betur séð fyrr — hversu mikilvægt hlutverk þeirra er. Samfélög funkera ekki án heilbrigðiskerfis og þar eru hjúkrunarfræðingar risastórt og ómissandi tannhjól,“ skrifar Tómas á Facebook.

Á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur fram að enn einum árangurslausum samningafundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og samninganefndar ríkisins (SNR) hafi lokið hinn 24. mars. „Enn ber mikið í milli deiluaðila þegar kemur að launaliðnum og viss atriði úr kröfugerð Fíh sem standa út af borðinu. Ríkissáttasemjari sleit fundi deiluaðila án þess að boða til nýs fundar.“

mbl.is