Slökkvistarfi lokið við Höfða

Slökkviliðið hefur birt magnaðar myndir af slökkvistarfinu í morgun á …
Slökkviliðið hefur birt magnaðar myndir af slökkvistarfinu í morgun á Facebook. Facebook-síða SHS

Slökkvistarfi lauk við malbikunarstöðina Höfða á fjórða tímanum en starfsmenn stöðvarinnar eru enn að störfum. Ekki liggur fyrir hvers vegna eldur kom upp í klæðningu tanks við stöðina. Bik er geymt við 120 gráðu hita í tönkunum svo það haldist fljótandi en óljóst er hvað varð til þess að eldur kom upp í klæðingunni.

Facebook-síða SHS

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliðinu vegna eldsins og aukamannskapur kallaður út.

„Í morgun var viðamikið útkall hjá okkur þegar eldur kviknaði í tanki við malbikunarstöðina Höfða. Kalla þurfti út allt tiltækt slökkvilið sem er í dag á níu stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Í verkefnið voru notaðir fimm dælubílar og tveir körfubílar. Eldurinn var í klæðningu utan á tanknum og þurfti að rífa mikið til að komast að eldinum og tryggja að ekki leyndist glóð á einhverjum stöðum.
Einnig þurfti að kalla út fólk af frívakt til að manna stöðvar og leysa önnur verkefni sem upp komu meðan unnið var að slökkvistarfinu. Slökkvistarf gekk vel og lauk því á fjórða tímanum í dag.

Facebook-síða SHS

Við höfum skipt upp vöktunum okkar til að koma í veg fyrir smit hjá okkar fólki. Það er aukaálag að gæta þess í útköllum að stöðvar blandist sem minnst saman. Við lok slökkvistarfs er strangt verklag þegar þau sem voru í útkallinu snúa til baka á sínar stöðvar þar sem þau mega ekki hitta þá sem leystu af á meðan á útkallinu stóð. Það sýndi sig vel í dag hversu fljótt okkar fólk er að aðlagast nýjum og krefjandi aðstæðum,“ segir á facebooksíðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins en þessu og myndum af síðunni var bætt við fréttina klukkan 17:15.

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliði og lögreglu vegna eldsins í …
Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliði og lögreglu vegna eldsins í morgun. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Töluvert annríki hefur verið hjá slökkviliðinu það sem af er degi. Meðal annars var einn fluttur á Landspítalann eftir aftanákeyrslu á Kjalarnesi á níunda tímanum í morgun. Eins var útkall vegna vatnsleka svo ekki sé talað um sjúkraflutninga tengda kórónuveirunni og inflúensu. 

Ljósmynd/Stefán Borgar
mbl.is