Hæð á Hrafnistu í sóttkví

Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði.
Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Fjórða hæð Hrafnistu í Hafnarfirði er komin í sóttkví eftir að starfsmaður sem var í vinnu fyrir nokkrum dögum greindist með kórónuveiruna. Enginn íbúa á hæðinni er veikur.

Þetta kemur fram í bréfi sem sent var aðstandendum íbúa á Hrafnistu í Hafnarfirði um helgina.

Þar segir að búið sé að upplýsa rakningateymi sóttvarnalæknis um málin.

Ef allt gengur að óskum verður deildin í sóttkví til 9. apríl.

Hrafnista hefur í forvarnarskyni gert sérstaka deild tilbúna til móttöku á íbúum sem reynast smitaðir af COVID-19. Deildin, sem staðsett er á nýju heimili Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík, er ætluð íbúum á öllum Hrafnistuheimilunum sex á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.

Komi til þess að íbúi á einhverju Hrafnistuheimilanna á höfuðborgarsvæðinu greinist smitaður af COVID-19 verður viðkomandi fluttur á deildina við Sléttuveg þar sem hann mun fá viðeigandi þjónustu meðan á veikindum stendur. Ráðstöfunin hefur verið kynnt fyrir íbúum og aðstandendum auk þess sem verið er að efla bakvarðarsveit heimilanna í forvarnarskyni komi til þess að fleiri í hópi starfsmanna þurfi að sæta sóttkví.

Með það að leiðarljósi hefur aðstandendum m.a. verið boðið að skrá sig í bakvarðarsveitina og hafa viðbrögð í þeim hópi farið fram úr björtustu vonum. Sem stendur er þó ekki gert ráð fyrir að kalla þurfi til aðstandendur, en komi til þess munu viðkomandi starfa á öðrum heimilum en þeim sem nánustu skyldmenni búa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert