Hafa lítið velt sér upp úr hótun

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt tilfelli um hótun hefur komið upp gagnvart þríeyki almannavarna og landlæknis sem berst opinberlega gegn útbreiðslu kórónuveiru hérlendis.

Um er að ræða staka hótun sem barst teyminu en hún beindist ekki persónulega að Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, að sögn hans sjálfs. „Mér hafa ekki borist neinar hótanir sjálfum.“

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar tvö að um hótanir væri að ræða en Þórólfur segir að hann viti einungis til þess að ein hótun hafi borist. 

„Þetta var bara eitthvert mál sem var tekið upp. Við höfum ekkert verið að velta okkur meira upp úr þessu,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Þríeykið sem um ræðir samanstendur af Þórólfi, Ölmu Möller landlækni og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra.

Stöð 2 greindi frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði aukið viðbúnað vegna þessa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina