Sjöundi starfsmaður þingsins smitaður

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðbragðsteymi Alþingis greindi frá því í dag að einn starfsmaður þingsins til viðbótar hefði um helgina bæst í hóp þeirra sem greinst hafa með Covid-19-veiruna. Viðkomandi hefur starfsstöð í Blöndahlshúsi, en hefur verið í sóttkví síðastliðnar tvær vikur.

Áður höfðu sex starfsmenn og einn þingmaður, Smári McCarthy, þingmaður Pírata, smitast af kórónuveirunni.

Fram kemur á vef þingsins að fjögur þeirra sem veiktust af veirunni hafi náð bata og vonir standi til að hin losni úr einangrun á næstu dögum.

Einn starfsmaður er í sóttkví til 8. apríl eftir samskipti við einstakling utan skrifstofunnar en hann er ekki veikur.

Á skrifstofu Alþingis verður haldið óbreyttu fyrirkomulagi enn um sinn og starfsfólk vinnur heima eins og mögulegt er. Þeir sem nauðsynlega þurfa að vera á skrifstofunni eru hvattir til að gæta ýtrustu varúðar; gæta að handþvotti, virða tveggja metra regluna og sótthreinsa í kringum sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert