Fjöldi rúma á gjörgæslu tvöfaldaður

Sigríður Gunnarsdóttir.
Sigríður Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landspítalinn er breyttur í dag fyrir alla, bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn. Það er gríðarleg áskorun, sagði Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, á blaðamannafundi.

Hún sagði að það hefði haft mikla keðjuverkun í för með sér að draga niður úr valkvæðri starfsemi. Lögð hefur verið mikil áhersla á að byggja upp getu á gjörgæsludeildum. „Við höfum á nokkrum vikum rúmlega tvöfaldað þann rúmafjölda sem við höfum á gjörgæslu,“ sagði hún. Hvað þetta varðar hafi skipt mestu máli að styrkja mönnun í hjúkrun. Einnig hafi nýr búnaður skipt máli.

Hún sagði að reyndir gjörgæsluhjúkrunarfræðingar hafi verið virkjaðir sem hafi verið horfnir til annarra starfa, auk þess sem svæfingahjúkrunarfræðingar hafi komið inn í annað starf en þeir alla jafna gegna. Um 60 hjúkrunarfræðingar sinna nákvæmu eftirliti með sjúklingum. Þeir koma úr bakvarðasveit og innanhúss frá Landspítalanum.

Starfsemi á fjórum nýjum legudeildum hefur verið breytt til að taka við veikum Covid-sjúklingum. Til að sinna þeim er þörf á 30 til 50% meiri hjúkrun en alla jafna fyrir hefðbundna sjúklinga. Bæði kemur það til vegna þess hversu veikir þeir eru og einnig vegna þess að allt verklag hefur breyst. Til að ná að manna þetta hefur verið leitað innanhúss og í bakvarðasveitina.

Dæmi eru um að hjúkrunarfræðingar hafi boðist til þess að stytta fæðingarorlof sín til að veita aðstoð vegna veirunnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert