„Auðveldara að halda tveimur metrum í Krónunni“

Líklega hafa sjaldan jafn margir nýtt sér útivistarsvæði borgarinnar og …
Líklega hafa sjaldan jafn margir nýtt sér útivistarsvæði borgarinnar og þessa dagana. Fólk á tveimur jafnfljótum var víða í Elliðaárdalnum í dag, en einnig fólk á annars konar fararskjóta. mbl.is/Teitur Gissurarson

„Það er auðveldara að halda tveimur metrum í Krónunni!“ heyrist í einum gangandi vegfaranda meðan gengið er yfir eina af brúnum yfir Elliðaárnar, aftan við gamla rafstöðvarhúsið. Þannig er ástandið líklega víða á vinsælli útivistarsvæðum borgarinnar, enda keppist fólk við að fylgja leiðbeiningum yfirvalda; halda sig í bænum, hitta sem fæsta og halda andlegu og líkamlegu atgervi í sæmilegu ásigkomulagi.

Tilbúnir að taka inn d-vítamín

Í Elliðaárdalnum virtist mættur að minnsta kosti helmingur borgarbúa, börn og fullorðnir, hjólreiðafólk og göngugarpar, flestir með bros á vör og allir með það markmið hugfast að halda þolinu við. „Ég hlýði Víði,“ mátti heyra brjótast um í huga flestra sem mættust á stundum þröngum stígunum, enda pössuðu sig flestir á að halda hæfilegri fjarlægð við aðra gesti dalsins. 

Við Árbæjarstíflu. Sumir gengu í dalnum en aðrir gáfu fuglunum …
Við Árbæjarstíflu. Sumir gengu í dalnum en aðrir gáfu fuglunum að éta. mbl.is/Teitur Gissurarson

Má telja líklegt að gott veður hafi einnig spilað inn í góða mætingu í dalinn um kaffileytið í dag, enda sumir léttklæddir og tilbúnir í að taka inn d-vítamínið þegar sólin braust í gegnum skýin og vermdi hörundið stutta stund. 

Eins og margir aðrir almenningsbekkir borgarinnar gengur sá á toppi …
Eins og margir aðrir almenningsbekkir borgarinnar gengur sá á toppi Úlfarsfells nú einungis fyrir einn í einu. Aðrir göngugarpar en sá sem sat virtu tveggja metra regluna, slepptu því að setjast og létu sér nægja að hrista lappirnar og halda svo áfram. mbl.is/Teitur Gissurarson

Maður við mann

Ástandið var svipað á Úlfarsfelli í Úlfarsárdal í gær, maður við mann og mátti heyra þungan andardrátt þróttmikilla göngugarpa þramma fellið upp og niður langt fram eftir degi. Eins og í Elliðaárdalnum í dag þurfti blaðamaður að hafa sig allan við að halda sig utan tveggja metra radíuss við aðrar fjallageitur, enda stígar á köflum þröngir og margir að keppa um plássið. Sama þema var þó þar og í Elliðaárdalnum; flestir voru skynsamir, tóku sinn tíma og héldu bilinu og nutu útsýnisins og dagsins. 

Blaðamaður mælir með að hafa almennilegan skófatnað meðferðis, ætli maður …
Blaðamaður mælir með að hafa almennilegan skófatnað meðferðis, ætli maður að komast þurr í fæturna upp á Úlfarsfell. mbl.is/Teitur Gissurarson

Jarðvegurinn kringum fellið hefur þó ekki farið varhluta af auknum áhuga borgarbúa á útiveru enda virtust göngustígar, sér í lagi við rætur fellsins, hafa orðið fyrir nokkru raski undanfarið. Líklega spila þar inn í umhleypingar síðustu daga en blaðamaður beinir því til áhugasamra að gott er að hafa almennilegan skóbúnað meðferðis, þó ekki væri nema til að verða ekki votur í fæturna á fyrstu köflunum. Mætti hann nokkrum sem höfðu flaskað á þessu og gengu upp með vota fætur, súrir á svip.

Við rætur Úlfarsfells. Hver hópurinn á fætur öðrum skondraði upp …
Við rætur Úlfarsfells. Hver hópurinn á fætur öðrum skondraði upp og niður fellið. mbl.is/Teitur Gissurarson

Á Laugavegi, í miðbænum, er hins nóg að vera léttklæddur og engin ástæða til að óttast of mikið samneyti við aðra þar. Þar settu, síðdegis í dag, svip sinn á bæinn páskadags- og samkomubannslokanir og því einungis fáir á vappi. Þeir fáu sem sáust líklega einungis á leið heim úr búð til að halda áfram með innanhússferðalögin.

Bílastæðið við Úlfarsfell var yfirfullt í gær. Þurftu þeir sem …
Bílastæðið við Úlfarsfell var yfirfullt í gær. Þurftu þeir sem komu akandi jafnvel að leggja úti í vegkanti. mbl.is/Teitur Gissurarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert