Fólk er mis-„paranojað“

Hugrún Ragna Grundfjörð hætti með kærustunni sinni í október eftir …
Hugrún Ragna Grundfjörð hætti með kærustunni sinni í október eftir búferlaflutninga til Danmerkur. Hún starfar nú hjá flutningafyrirtækinu PostNord, stefnir á nám í húsgagnasmíði og segir Íslendinga mjög eftirsótta á dönskum vinnumarkaði. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk vinnu hjá PostNord fljótlega eftir að allt lokaðist hér, það er brjálað að gera,“ segir Hugrún Ragna Grundfjörð, 22 ára gömul íslensk kona sem flutti til Danmerkur með kærustunni sinni í ágúst í fyrra, í samtali við mbl.is.

„Svo hættum við saman í október og ég var hálfpartinn í lausu lofti. Mig langar að læra húsgagnasmíði en ég fékk þessa vinnu hjá PostNord svo námið bíður í bili. Mig langar svo að vinna eitthvað með höndunum,“ segir Hugrún enn fremur.

„Allt í einu vantaði meiraprófsbílstjóra, vinkona mín hringdi í mig og lét mig vita af því. Hún sagði bara „drífðu þig í föt og sæktu um!“ segir Hugrún og hlær. Vinnan hjá PostNord, einum stærsta farmflytjenda Skandinavíu, er önnur vinnan hennar í Danmörku.

Ratar ekki neitt

„Ég var áður að vinna á bar sem er náttúrulega lokaður núna,“ segir Hugrún frá. „Nú er ég að keyra út sendingar, mestmegnis í Nørrebro og á Amager. Ég rata auðvitað ekki neitt, er bara á GPS-inu,“ segir bílstjórinn íslenski.

En hvernig skyldi stemmningin vera í Kaupmannahöfn í miðjum kórónufaraldri?

„Í þessari kórónukrísu er fólk mis-„paranojað“, miðbærinn í Kaupmannahöfn hefur líklega aldrei verið eins tómur. Það lyftir stemmningunni þó aðeins að veðrið hér hefur verið frábært, sól og danskt vor í lofti,“ segir Hugrún og er bjartsýnið uppmálað.

Húsgagnasmíðin draumurinn

Hún býr um þessar mundir hjá frænku sinni í Valby, Ester Guðbjörnsdóttur. „Ég er tuttugu mínútur að hjóla niður í bæ, þetta er engin vegalengd þannig lagað,“ segir Hugrún. Hún segist reikna með að starfa enn um sinn hjá PostNord. „Svo langar mig að komast í skóla og læra húsgagnasmíði, ég er svo mikil handverksmanneskja,“ segir hún.

„Allt í einu vantaði meiraprófsbílstjóra, vinkona mín hringdi í mig …
„Allt í einu vantaði meiraprófsbílstjóra, vinkona mín hringdi í mig og lét mig vita af því. Hún sagði bara „drífðu þig í föt og sæktu um!“ segir Hugrún og hlær. Myndin er tekin utan við Elbagade 71 á Amager í Kaupmannahöfn þar sem fjölskylda Hugrúnar bjó um aldamótin. Ljósmynd/Aðsend

Í byrjun vikunnar varð ljóst að ekkert yrði af Hróarskelduhátíðinni annáluðu. Hvernig taka Danir því?

„Margir eru mjög ósáttir. Gestum hefur verið boðið að nýta miða sína á næsta ári sem verður þá 50. hátíðin en auðvitað átti enginn von á að þetta gengi svona langt og þjóðin er í áfalli hreinlega,“ segir Hugrún.

En hvernig skyldi þá vera að starfa hjá PostNord?

„Þetta er fínt bara, launin eru fín. Íslendingar eru líka eftirsóttir á vinnumarkaði hér, við nennum bara þegar Skandinavar nenna ekki,“ svarar Hugrún hlæjandi og samræmist sú kenning hennar upplifun blaðamanns sem hefur verið búsettur í Noregi í tíu ár þar sem Íslendingar þykja heldur betur hamhleypur til vinnu. „Við erum bara alltaf til í að henda okkur í vinnu, sama hvað á dynur, er það ekki bara okkar eðli?“ spyr Hugrún Ragna Grundfjörð, meiraprófsbílstjóri og verðandi húsgagnasmiður í Kaupmannahöfn, að lokum í spjalli við mbl.is.

Í fríi á Kanaríeyjunni Fuerteventura í febrúar 2019. Hugrún segir …
Í fríi á Kanaríeyjunni Fuerteventura í febrúar 2019. Hugrún segir Íslendinga eftirsótta á dönskum vinnumarkaði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert