Krían komin til landsins

Þessi kría sást fljúga tignarlega í Óslandi á Höfn í …
Þessi kría sást fljúga tignarlega í Óslandi á Höfn í Hornafirði í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Krían er komin til landsins. Fyrstu tvær kríurnar sáust í Óslandi á Höfn í Hornafirði klukkan 9:15 í morgun. Hún ku víst vera ögn fyrr á ferðinni en vanalega þótt ekki muni nema örfáum dögum.

Það voru félagarnir Brynjúlfur Brynjólfsson og Björn Gísli Arnarson, starfsmenn fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, sem ráku augun í kríurnar tvær. Brynjúlfur segir í samtali við mbl.is að þeir hafi verið nokkuð vissir um að krían myndi láta sjá sig núna í þessari suðaustlægu átt.

Krían kemur vanalega um þetta leyti árs og í fyrra sást hún 19. þessa mánaðar. Brynjúlfur segir að eftir rúma viku verði hún komin líklega um land allt. 

„Við ætlum okkur alltaf að finna fyrstu kríuna. Við vorum að ræða það að við myndum sjá hana þegar þessar tvær flugu fyrir ofan okkur,“ segir hann sposkur. 

Krían, líkt og lóan, boðar vorkomuna hér á landi. „Þetta er alltaf gaman. Vorið er ekki almennilega komið fyrr en maður lætur aðeins gogga í sig,“ segir þessi fuglaáhugamaður með meiru sem var að taka sýni úr þresti þegar mbl.is sló á þráðinn til hans austur. mbl.is