Eitt prósent verðbólga og 15 stiga hiti að jafnaði

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef við ætlum að vaða inn í alla þá fjármálagerninga sem þegar hafa verið gefnir út og eru grundvöllurinn að kjörum lífeyrisþega í landinu og ætlum að kippa þeim úr sambandi þá þurfum við að svara spurningunni hvaða afleiðingar það á að hafa fyrir lífeyrisréttindin,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði Bjarna að því hvers vegna verðtryggingin sé ekki einfaldlega tekin úr sambandi, í ljósi þess að fjármálaráðherra og fleiri hafi ekki áhyggjur af verðbólguskoti. Með því væri hægt að eyða áhyggjum og ótta fólks sem standi hvað verst.

Sagði Guðmundur að nær öll lán heimilanna á Íslandi væru í raun verðtryggð þar sem að óverðtryggð lán taki mið af verðbólgu. Þá væru nær allir leigusamningar á Íslandi verðtryggðir og því hefði þak á verðbólguna gríðarleg áhrif á alla þá sem eru á leigumarkaði.

Spurði hann hvers vegna í ósköpunum verðtryggingin væri ekki tekin úr sambandi. Það ætti ekki að vera mikið mál þar sem enginn óttist verðbólguskot og með því væri hægt að slá mikið á ótta fólks.

Bjarni sagði það hins vegar stórmál að taka verðtrygginguna úr sambandi. „Það er einhver viðtakandi á hinum endanum og það vill þannig til að þar eru lífeyrisþegar í landinu sem fara þar fremstir í flokki,“ útskýrði Bjarni.

Hann spurði á móti af hverju það væri ekki alveg eins hægt að ákveða hver verðbólgan væri. Hún væri jú bara mælistika sem skrifuð væri inn í lög. „Af hverju tökum við ekki ákvörðun um það að á Íslandi verði á næstu árum bara 1% verðbólga? Hvers vegna ekki? Og líka bara 15 stiga hiti að jafnaði. Það er ekki hægt að nálgast þessa umræðu svona,“ sagði hann og svaraði þar með eigin spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert