350 milljóna króna stuðningur við einkarekna fjölmiðla

Þak verður sett á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla.
Þak verður sett á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin hyggst styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla með 350 milljóna króna framlagi, vegna þess mikla tekjutaps sem miðlarnir hafa orðið fyrir samhliða minnkandi umsvifum í hagkerfinu.

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar síðdegis þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu framhaldsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Þak á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú að reglugerð um úthlutun stuðningsins.  Gert er ráð fyrir því að fjölmiðlar sæki um stuðning með formlegum hætti og stuðningurinn taki mið af launakostnaði fjölmiðla vegna fréttamiðlunar. Þak verður sett á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla, svo stuðningurinn nýtist bæði stórum og litlum miðlum.

„Það er samfélagslega mikilvægt að tryggja vandaða fjölmiðlun í landinu og með þessu styðjum við reksturinn og aukum atvinnuöryggi blaðamanna. Þótt tekjur fjölmiðla hafi dregist verulega saman hefur spurn eftir þjónustu þeirra stóraukist. Fjölmiðlar hafa því ekki getað dregið saman seglin eða nýtt sér hlutabótaleiðina á sama hátt og mörg þeirra fyrirtækja sem misst hafa stóran hluta tekna sinna. Það kallar á sérstök viðbrögð,“  er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

Nánari upplýsingar um úthlutunarreglur verða veittar um leið og reglugerð þar um liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert