Fari á flug þegar færi gefst á ný

Faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á flugferðir um allan heim.
Faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á flugferðir um allan heim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill áhugi er á Íslandi meðal ferðafólks og þeim fjölgar sem geta hugsað sér að ferðast milli Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta sýna markaðskannanir Icelandair, en 86% svarenda þeirra segjast treysta Íslandi þegar kemur að málefnum tengdum útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þegar fólk er spurt hvort það sé áhugasamt um að ferðast til Íslands í framtíðinni lýsa 76% svarenda því yfir að áhuginn sé fyrir hendi. Sérstaklega er áhuginn mikill í Toronto, Lundúnum, París og á þeim svæðum í Bandaríkjunum sem hafa flugtengingar við Ísland.

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, telur þetta gefa vonir um að landið geti risið hratt á ný. Félagið hyggist vera í stakk búið til að nýta breyttar aðstæður þegar færi gefst.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það jákvætt ef ný flugfélög geta hafið flug til Íslands og frá, en ViðskiptaMogginn greindi á miðvikudag frá því að flugfélagið Bláfugl væri reiðubúið til að fylla skarð Icelandair tímabundið, fari svo að félagið verði gjaldþrota. Varast beri þó að líta svo á að önnur félög geti alfarið stigið inn í stað Icelandair.

Fulltrúar Félags íslenskra atvinnuflugmanna voru enn á fundi með forsvarsfólki Icelandair vegna kjarasamninga flugmanna þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert