„Ég hef mikla trú á mér“

„Að trúa á sjálfan sig er númer eitt, tvö og …
„Að trúa á sjálfan sig er númer eitt, tvö og þrjú. Þó að það sé stundum langt í mark verður maður að halda áfram og gefast aldrei upp. Ég gefst aldrei upp, enda hef ég náð öllum markmiðum sem ég hef sett mér,“ segir Hafþór Júlíus. mbl.is/Ásdís

Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson er einn sterkasti maður heims og sló nýlega heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann lyfti rúmlega hálfu tonni. Hafþór rekur eigin líkamsræktarstöð, tekur þátt í keppnum víða um heim og æfir nú box fyrir einvígi sem fer fram á næsta ári. Hann lék í Game of Thrones og fékk þá viðurnefnið Fjallið, en Hafþór er yfir tveir metrar á hæð og tvö hundruð kíló. 

Í dag gengur vel hjá Hafþóri og á hann aðdáendur um heim allan. Hann er hamingjusamlega giftur, á eina dóttur og á von á syni sem hann bíður spenntur eftir. Nýlega sló Hafþór heimsmet þegar hann lyfti yfir hálfu tonni í réttstöðulyftu. Hann hyggst nú setja aflraunir á bið því næst á dagskrá er að æfa box fyrir einvígi sem haldið verður í Las Vegas á næsta ári. Fyrir það fær Hafþór yfir milljón dollara.

Sterkasti maður Íslands níu sinnum

„Ég var átján ára þegar ég keppti á mínu fyrsta „power“ lyftingamóti, en þar er keppt í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Árið 2009 fór ég að keppa í aflraunum sem kallast „Strongman“ á ensku og féll fyrir því,“ segir hann og segist núna aðallega vera í aflraunum.
„Jón Páll var í aflraunum. Þetta er mjög vinsælt úti í heimi og áhuginn að aukast. Á mínu fyrsta móti á Íslandi setti ég Íslandsmet í helluburði og féll alveg fyrir sportinu. Þetta hentaði mér mjög vel. Og síðan eru liðin um tíu ár og ég hef unnið Sterkasti maður Íslands níu ár í röð. Ég hef unnið mörg mót og varð sterkasti maður Evrópu fimm sinnum, einu sinni sterkasti maður heims og þrisvar í röð hef ég unnið sterkt aflraunamót sem Arnold Schwarzenegger heldur ár hvert.“

Hafþór varð sterkasti maður heims árið 2018.
Hafþór varð sterkasti maður heims árið 2018. mbl.is/Ásdís

Má aldrei gefast upp

 „Það þyngsta sem ég hafði lyft áður en ég setti heimsmetið var 480 kíló. Ég æfði vel fyrir þetta. Það var mikil pressa á mér því þetta var sýnt „live“ um allan heim. Það var gríðarlegt áhorf og ég er mjög stoltur af því. Það erfiðasta við svona lyftu er undirbúningurinn; það liggur að baki rosaleg vinna. Ég pæli mikið í mataræði, svefni og æfingum, ár eftir ár. Ég vil vera bestur og þá er ég reiðubúinn að leggja þá vinnu á mig.“

Hafþór sló heimsmet og lyfti 501 kílói 2. maí síðastliðinn. …
Hafþór sló heimsmet og lyfti 501 kílói 2. maí síðastliðinn. Hann segist hafa fellt tár af gleði. Ljósmynd/Aðsend

Var einhver efi í þínum huga að þú gætir þetta?

„Nei, ég hef mikla trú á mér. Þetta byrjar allt í hausnum og um leið og maður fer að efast fer maður að tapa. Að trúa á sjálfan sig er númer eitt, tvö og þrjú. Þó að það sé stundum langt í mark verður maður að halda áfram og gefast aldrei upp. Ég gefst aldrei upp, enda hef ég náð öllum markmiðum sem ég hef sett mér. Eins og að verða sterkasti maður heims. Það tók mörg ár en ég gafst ekki upp. Ég sagði nei við mörgum öðrum tækifærum á þessum tíma, eins og að leika í kvikmyndum, af því að ég hafði þetta markmið og þennan draum.“

Hvernig var tilfinningin að ná að lyfta 501 kílói, meira en nokkur annar hefur gert?

„Kona mín kom hlaupandi grátandi til mín og ég varð sjálfur mjög tilfinningasamur. Maður felldi tár. Þetta var stórt augnablik. Þetta var góð tilfinning.“

Rígur á milli okkar

„Það er fyrst núna sem ég er kannski að slaka á en ég er ekkert hættur í aflraunum. Ég ætla að keppa í Sterkasta manni Íslands því ég setti mér það markmið að vinna það mót tíu sinnum í röð. En núna er ég kominn með nýtt markmið; ég er að fara að boxa. Ég er byrjaður að æfa fyrir það og er mikið í tæknivinnu. Ég geri mér grein fyrir að ég er enginn boxari en ég fékk gott tækifæri. Mér var boðinn samningur sem ég gat ekki hafnað og hef ég nú eitt og hálft ár til að æfa mig. Mér fannst það spennandi verkefni því ég er búinn að ná öllum mínum markmiðum í aflraunum. Ég hef fengið alls kyns tilboð en mér fannst þetta mest spennandi,“ segir Hafþór sem hyggst keppa við hinn breska aflraunamann Eddie Hall. Mikil spenna ríkir hjá aðdáendum aflraunamannanna tveggja sem og annarra áhugamanna um bardagaíþróttir.
„Eddie hefur líka keppt í aflraunum og vann Sterkasti maður heims árið 2017 en ég vann árið 2018. Það hefur verið rígur á milli okkar; við höfum ekki verið bestu vinir.“

„Ég fæ lágmark milljón dollara,“ segir Hafþór og bætir við að ýmislegt annað verði til að hækka þá upphæð eins og miðasala inn á bardagann, sala bola og fleira.

Heldurðu að þú vinnir bardagann?

„Já! Ég hef alla tíð haft mikla trú á mér. Og það hefur skilað mér árangri. Ég legg mikla vinnu í allt sem ég geri. Ég get alveg séð það að ég roti hann í fyrstu lotu. Hann er aðeins minni en ég og hann mun líklegast reyna að hjóla í mig mjög hratt. Ég held að það muni verða honum til falls.“

Bíðum spennt eftir stráknum

Eiginkona Hafþórs er hin kanadíska Kelsey Morgan Henson. Þau kynntust á veitingastað í Kanada árið 2017 þar sem hún vann. 

„Ég varð ástfanginn og við bæði og innan árs var hún flutt hingað og við erum gift í dag. Hún er yndisleg kona og góð sál og við náum hrikalega vel saman. Við eigum von á syni í október,“ segir Hafþór og er að vonum spenntur.

„Hún fer oft til Kanada og heimsækir fjölskyldu sína og hún nær mjög góðu sambandi við mínar systur og mína fjölskyldu. Við erum ein stór fjölskylda og bíðum spennt eftir stráknum. Það eru spennandi tímar fram undan. Og þótt árið 2020 sé erfitt í heiminum með öllu sem er í gangi, þá verður 2020 alltaf gott ár fyrir okkur. Þetta er árið sem ég sló heimsmet og eignast son,“ segir Hafþór en fyrir á hann ellefu ára dóttur, Theresu Líf, sem býr í Danmörku.

Hafþór segir Kelsey fljótt hafa fundið sér verkefni á Íslandi. 

„Ég er áhrifavaldur með 3,3 milljónir fylgjenda á Instagram og enn aðra á Youtube og Twitch. Svo er ég líka með styrktaraðila frá ýmsum fyrirtækjum og ég auglýsi þá þeirra vörur á þessum miðlum. Fólk fór svo að tala mjög mikið um okkur Kelsey og hún varð mjög vinsæl mjög hratt og er komin með um hálfa milljón fylgjenda á
Instagram og er því orðin áhrifavaldur líka. Það er hennar vinna og hún fær þar fínar tekjur. Svo er hún núna í einkaþjálfaranámi.“

Hæðarmunur hjónanna hefur vakið athygli víða og varð til þess …
Hæðarmunur hjónanna hefur vakið athygli víða og varð til þess að fylgjendum Kelsey á Instagram fjölgaði mikið. mbl.is/Ásdís

Ég sé að það er gert góðlátlegt grín að hæðarmun ykkar, hvernig finnst þér það?

„Það var eiginlega það sem varð til þess að hún stækkaði svona hratt því það voru stórir fréttamiðlar sem voru að tala mikið um hæðarmuninn. Þá fór fólk að fylgja henni og það vatt upp á sig. Hún er um 1,57 en þetta hefur aldrei truflað okkur. Ég pæli í dag ekkert í hæð, þyngd, húðlit eða aldri. Ég gef alltaf öllum séns. Hjartað er það sem skiptir máli.“

Frægð eftir Game of Thrones

Árið 2013 höfðu framleiðendur Game of Thrones samband við Hafþór og var hann ráðinn í hlutverk. Upptökur hófust svo ári síðar.

Hafþór lék Fjallið í Game of Thrones og á í …
Hafþór lék Fjallið í Game of Thrones og á í dag marga aðdáendur um víða veröld. Ljósmynd/Aðsend



„Það var mest tekið upp í Króatíu og svo í Belfast á Írlandi og aðeins á Spáni. Ég lék Gregor Clegane sem var kallaður The Mountain, eða Fjallið. Þeir breyttu svo um nafn og hann hét Robert Strong í lokin,“ segir Hafþór og segist hafa verið í tökum í mörg ár, alltaf af og til.
„Ég flaug á milli og stundum var það minna og stundum meira. Þetta var hrikalega mikið ævintýri og mjög gaman. Þetta var mikil áskorun, enda er ég ekki lærður leikari.“

Ítarlegt viðtal við Hafþór er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert