Slökkti á tilfinningum til að geta spilað

Jana hefur spilað tölvuleiki frá því hún var barn.
Jana hefur spilað tölvuleiki frá því hún var barn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef þurft að hlusta á þetta öll þessi ár sem ég hef verið að spila. Ef ég ákveð að tala alla daga þá fæ ég þetta næstum á hverjum einasta degi, en stundum fel ég að ég sé stelpa og þá þarf ég ekki að ganga í gegnum þetta.“

Þetta segir Jana Sól Ísleifsdóttir, átján ára gamall tölvuleikjaspilari, um það áreiti og þá áreitni sem hún verður fyrir innan tölvuleikjasamfélagsins vegna kyns síns.

Jana hefur vakið athygli á stöðu kvenna í tölvuleikjaheiminum innan Facebook-hópsins Tölvuleikjasamfélagið og vakið verðskuldaða athygli fyrir. „Næstum allar stelpur sem hafa kommentað hjá mér segjast þurfa að fela af hvaða kyni þær eru þaf því þær eru svo hræddar um að fá slæm viðbrögð,“ segir Jana í samtali við mbl.is.

Ekki bara aðkast frá unglingsstrákum

Jana hefur spilað tölvuleiki frá því hún var barn. Um þessar mundir spilar hún aðallega leik sem heitir Overwatch og ætlar hún sér að ná langt. Henni finnst aðkastið sem hún verður fyrir vegna þess að hún er stelpa vera óviðunandi. Með einni færslunni á Tölvuleikjasamfélaginu deilir hún myndbandi þar sem bandarískur, kvenkyns tölvuleikjaspilari gefur áhorfendum innsýn inn í það sem hún þarf að sitja undir alla daga, og hægt er að horfa á hér að neðan.

„Hún er búin að gera fjórtán svona myndbönd og þau verða ekki skárri, en þetta er auðvitað ekki alltaf jafnslæmt,“ segir Jana og tekur fram að þvert á það sem margir halda fram sé þarna ekki einungis um að ræða unglinga, heldur einnig fullorðið fólk.

Jana segir að kynferðisleg áreitni sé helst það sem hún þurfi að hlusta á, auk þess sem klassískt sé að segja konum að fara aftur í eldhúsið að smyrja samlokur. „En þetta er oftast eitthvað kynferðislegt. Þeir reyna oft að spyrja mig um Snapchattið mitt eða Instagram og svo er mikið reynt við mig. Ef ég slæ það út af borðinu og segist frekar vilja spila leikinn verða þeir ótrúlega súrir og leiðinlegir og reyna að tapa leikjunum. Þessir strákar og menn taka höfnun mjög illa.“

Þá bendir Jana á að margir hafi ranghugmyndir um konur vegna kvikmynda og hvernig kvenkyns persónur í tölvuleikjum líta út. Þá hjálpi það ekki að til séu konur sem séu inni á tölvuleikjarásum til þess eins að fá pening fyrir að sýna brjóstin.

Kynferðisleg áreitni ekkert grín

Í Tölvuleikjasamfélaginu benda nokkrir á að mikið sé af svokölluðum tröllum (e. trolls) á alnetinu og að strákar hafi það síst skárra. Jana segir það ekki standast vegna þess að karlar séu í miklum meirihluta í tölvuleikjasamfélaginu og að áreitnin snúist aðallega um að gera lítið úr konum. „Ef þeir væru að beina þessari áreitni að sínu eigin kyni væru þeir að gera lítið úr sjálfum sér. Það kemur alveg fyrir að einhver verður brjálaður og segist ætla að myrða fjölskyldu fólks eða hakka sig inn í tölvuna og strákar lenda líka í því en yfirleitt ekki jafnslæmu og stelpur. Þeir segja að þetta sé bara djók, að þeir séu bara að grínast, en þegar þú ferð út í kynferðislega áreitni þá er það ekki grín.“

„Næstum allar stelpur sem hafa kommentað hjá mér segjast þurfa …
„Næstum allar stelpur sem hafa kommentað hjá mér segjast þurfa að fela af hvaða kyni þær eru þaf því þær eru svo hræddar um að fá slæm viðbrögð,“ segir Jana í samtali við mbl.is. AFP

Aðrir hvetja Jönu til að svara fyrir sig en Jana segir það allt of orkufrekt, auk þess sem hún sé með mikinn kvíða vegna áralangs eineltis á meðan á grunnskólagöngu hennar stóð, en hún var greind með með athyglisbrest og Asperger í 6. bekk og hún féll aldrei inn í hópinn og leitaði frekar í tölvuleikina.

„Það tekur svakalega mikla orku að vera alltaf að svara fyrir sig. Það er ótrúlega erfitt að byrja þessa umræðu og halda henni áfram, en ég mun gera það af því ég fékk enga hjálp þegar ég var að alast upp í þessu. Ég vil ekki aðrar stelpur þurfi að ganga í gegnum það,“ segir Jana, en um árabil greip hún til þess ráðs að slökkva á tilfinningum sínum til þess að geta haldið áfram að spila tölvuleiki þrátt fyrir alla áreitnina.

„Það er bara eitt af því versta sem ég hef gert og ég mæli ekki með því fyrir neinn. Þú átt ekki að þurfa að slökkva á tilfinningum og hætta að vera manneskja bara til þess að geta spilað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert