Áhrif samkomubanns sjáanleg á íbúðamarkaði

Árbærinn í Reykjavík.
Árbærinn í Reykjavík. mbl.is

Alls var 275 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst í apríl og voru viðskipti 47% færri en í apríl fyrir ári, þegar 525 kaupsamningum var þinglýst, samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. 

„Gera má ráð fyrir því að fólk hafi síður viljað mæta og skoða íbúðir og að sama skapi hafi seljendur síður viljað fá heimsóknir meðan útbreiðsla faraldursins stóð sem hæst og kemur þessi niðurstaða því ekki endilega á óvart. Það er þó einnig mögulegt að viðskipti hafi verið fleiri, en þinglýsingar tafist vegna samkomubanns,“ segir í Hagsjá Landsbankans. 

Íbúðaverð lækkaði og annað verðlag hækkaði

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði að meðaltali um 0,05% milli mars og apríl. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 0,6%. Á sama tíma og íbúðaverð lækkaði, hækkaði annað verðlag einnig. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,57% milli mars og apríl og lækkaði því raunverð íbúðarhúsnæðis um 0,6% milli mánaða. 12 mánaða hækkun nafnverðs mælist nú 3,2% og samsvarandi hækkun raunverðs er heldur lægri, eða 1,3%.

Fram kemur að framboð íbúða á sölu virðist vera nokkuð meira nú en síðustu vikur. „Það er því útlit fyrir að framboð sé að komast í eðlilegt horf eftir samkomubann, og gott betur. Hvaða áhrif það hefur á sölu er þó óvíst og fer eftir því hver eftirspurnin verður. Aukið atvinnuleysi ásamt efnahagsþrengingum almennt mun að líkindum draga úr eftirspurn með þeim afleiðingum að verðhækkanir verði afar hóflegar,“ segir í Hagsjánni. 

mbl.is